Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:53]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt. Hverjir voru skornir niður? Það liggur ekki fyrir. Rannsóknarnefnd Alþingis gæti svarað þessari spurningu fyrir okkur. Það er alveg rétt að sá sem keypti fyrir minnst, einstaklingur, keypti á 1.100.000 kr. Og það er söluaðilinn ákveður að hann sé hæfur fjárfestir, það er ekkert sem liggur fyrir fyrir fram heldur taka söluráðgjafarnir upp símann og í hringja hann. Söluráðgjafar Íslandsbanka seldu sjálfum sér, miðlararnir hjá Íslandsbanka seldu sjálfum sér bréf og það er brot á stjórnsýslulögum en það virðist engar afleiðingar hafa fyrir Íslandsbanka. Þeir segja bara: Það vantar innri reglur. Þeir virðast ekki hafa lesið 4. gr. stjórnsýslulaga um vanhæfni. Þeir eru klárlega vanhæfir. Fjármálaráðherra líka. Hann selur pabba sínum bréf. Hann gerir það þótt hann viti ekki af því sjálfur. Málið er bara að áreiðanleikakönnun á þeim sem voru að kaupa lá ekkert fyrir. Skilgreiningin á hæfum fjárfesti lá ekki fyrir. Spurning er: Í hverja hringdu miðlararnir? Þeir hringdu í viðskiptavini sína og vildarvini. Það var það sem var gert. Það var verið að selja vildarviðskiptavinum söluaðila. Það var raunverulega kríterían sem var undir. Ég hitti fólk sem á pening og það spurði: Bíddu, af hverju fékk ég ekki að taka þátt? Það er kannski fólk að kaupa íbúðir hérna og reyna að koma peningum sínum í lóg eða fjárfestingu. Það er hellingur af Íslendingum sem vill kaupa á 1.100.000 kall. Fyrra útboðið var milljón, hámarkið var milljón þar. Það munar 100.000 kalli. Þetta sýnir hvers konar vinnubrögð þetta eru. Svo á sama tíma er sagt: Nei, við verðum að selja erlendum fjárfestum, á hvað, milljón, eina og hálfa. Það grátlega er að samningurinn við söluaðila, sem er á ensku, fjallar um það að með allan ágreining þurfi að fara til gerðardóms í London. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra að þessu og líka stjórnarformann Bankasýslunnar: Ert þú tilbúinn að fara með ágreiningsmál til gerðardóms í London gagnvart t.d. Landsbankanum eða Íslandsbanka sem ríkið á í? Ríki gæti fræðilega farið með ágreiningsmál fyrir gerðardóm í London við eigin fyrirtæki sem það á 100%. (Forseti hringir.) Svo grátlegt er þetta allt saman, algjört fúsk, algjör vanhæfni. Rannsóknarnefnd, takk.