Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við skulum átta okkur aðeins á samhenginu hérna og kannski einum helsta gallanum á þessu fyrirkomulagi sem var framkvæmt. Hér var verið að hleypa inn kaupendum með nokkrar milljónir í útboð meðal fjárfesta þar sem það þurfti ákveðið bolmagn til þátttöku og í því samhengi var talað um lífeyrissjóði, tryggingafélög o.s.frv. Meðal þessara fjárfesta sem var hleypt inn og ráðgjafi Bankasýslunnar sagði að væri óvenjulegt að tækju þátt í svona fyrirkomulagi var faðir fjármálaráðherra. Setjum þetta mál í skýrt samhengi. 6. gr. laga um ráðherraábyrgð er mjög skýr: „Hver ráðherra ber ábyrgð á stjórnarerindum þeim, sem út eru gefin í hans nafni …“

Í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er skýrt tekið fram, með leyfi forseta: „Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað …“ Ráðherra er ekki bara undirskriftarvél sem tekur við tillögu og rökstuddu mati Bankasýslunnar og skrifar undir. Hann þarf að velja hvort það er samþykkt eða hafnað. Ráðherra þarf upplýsingar fyrir framan sig, þar á meðal upplýsingar um það hvort hann sé hæfur til að taka þá ákvörðun. Í því tilviki þegar hann er að selja föður sínum þá er hann það augljóslega ekki. Bankasýslan ákveður á fundi sem stóð í einn klukkutíma að gefa út leiðbeinandi lokaverð og lokamagn og í kjölfarið er hringt í fjármálaráðherra, eins og segir í skýrslu ríkisendurskoðanda, með leyfi forseta:

„Milli kl. 20:41 og 20:53 áttu stjórnarformaður og forstjóri Bankasýslunnar símtal við fjármála- og efnahagsráðherra til að upplýsa hann um að stofnunin teldi rétt að birta leiðbeinandi lokaverð og magn á grundvelli ráðgjafar umsjónaraðila og fjármálaráðgjafa. Ráðherra gerði engar athugasemdir við áform stofnunarinnar.“

Hér erum við að tala um átta mínútna langt símtal þar sem verð og magn er ákveðið. Hvernig getur ráðherra hafa haft gögnin í höndunum til að taka þá ákvörðun? Ég sé ekki að það sé mögulegt í átta mínútna símtali, ég sé ekki að það sé séns. Rökstutt mat Bankasýslunnar um hvernig skuli standa að sölu eignarhluta ríkisins var síðan sent ráðherra kl. 21:40 og ráðherra svarar því með bréfi kl. 23:27 og veitir Bankasýslunni þar með umboð til að ljúka sölumeðferðinni. Á þessum tíma, milli kl. 21:40 og 23:27 var málið á ábyrgð ráðherra. Þar lá ákvörðunin um hvort ætti að selja eða ekki og hversu mikið ætti að selja, fyrir hvaða verð og hversu mikið, eins og var vísað í hérna áðan. Nákvæmlega á þessum tíma reynir á eitt af mörgum atriðum sem ráðherra þarf að huga að, þ.e. hæfi sínu til að taka ákvörðunina.

Gerum einfaldan samanburð um ábyrgð ráðherra við að skipa fólk í embætti hjá hinu opinbera. Í því tilfelli fær ráðherra yfirleitt rökstutt mat um umsækjendur frá hæfnisnefnd. Ráðherra fer yfir það mat og getur gert athugasemdir við það, eins og t.d. í tilfellinu um skipun dómara í Landsrétt. Það efaðist enginn um að þáverandi dómsmálaráðherra mætti gera breytingar, það þurfti bara að rökstyðja slíkar breytingar en það misfórst alvarlega í því tilfelli. Í þessu máli fær fjármálaráðherra rökstutt mat um hvort hann skuli taka þeim tilboðum sem borist hafa og hér er því alger hliðstæða milli tilboða annars vegar og umsækjenda hins vegar. Þegar ráðherrar skipar einstakling í opinbert embætti erum við öll 100% sammála um að ráðherra sé vanhæfur til að taka ákvörðun í máli þar sem einhver tengdur ráðherra er á meðal umsækjenda, hvað þá meðal þeirra umsækjenda sem lagt er til í rökstuddu mati að fái embætti. Ráðherra er vanhæfur til ákvarðanatöku í því tilfelli og ég skora á hvern sem er að halda öðru fram. Í þessu máli er vanhæfnispurningin nákvæmlega sú sama. Ef einhver tengdur ráðherra er meðal kaupenda þá er ráðherra vanhæfur til að taka ákvörðun um sölu. Á þessum tæpum tveimur klukkutímum gekk ráðherra ekki úr skugga um að hann væri hæfur til að taka ákvörðun um að samþykkja tilboð eða hafna. Um þetta var spurt á opnum fundi fjárlaganefndar, bæði með Bankasýslu og ráðherra.

Annað atriði sem er ámælisvert við störf ráðherra er að það er augljóst að hið rökstudda mat Bankasýslunnar er drasl. Það eru mín orð, mín lýsing á því sem þar stendur. Ríkisendurskoðun fjallar um þetta mat Bankasýslunnar með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Rökstutt mat Bankasýslunnar til ráðherra innihélt engan rökstuðning fyrir ákvörðun lokaverðs eða hvernig ákvörðun um það hafði áhrif á samsetningu kaupendahópsins. Ráðuneytið hafði hvorki nákvæmar upplýsingar um endanlega stöðu tilboðabókarinnar né hvernig átti að beita viðmiðum Bankasýslunnar við úthlutun hlutabréfanna sem kynnt voru í rökstudda matinu …“

Ráðherra hafði ekki hugmynd um það hvernig markmið hans, sem hann hafði sett í undirbúningi ferlisins, yrðu uppfyllt, ekki minnstu hugmynd. Ég skora á hvern sem er að lesa þetta svokallaða rökstudda mat sem innihélt engan rökstuðning. Það er augljóst af lestri þess hversu gagnslaust það er. Þetta mat er tveggja blaðsíðna skjal sem segir að á milli 150–200 hæfir fjárfestar hafi skráð sig fyrir hlutum í útboðinu fyrir samtals meira en 100 milljarða kr. Það ætti að vera öllum augljóst sem skoðar skjalið á sanngjarnan hátt að það er algerlega fráleitt að byggja ákvörðun ráðherra um margra milljarða krónu sölu á því sem þar kemur fram, a.m.k. ef fólk vill taka hlutverk sitt og ábyrgð á slíkri ákvörðun alvarlega.

Í vor voru haldnir opnir nefndarfundir í fjárlaganefnd með bæði Bankasýslu og fjármálaráðherra. Rifjum aðeins upp hvað var sagt þar. Munið þið eftir því t.d. þegar Bankasýslan sagði að tilboðsfyrirkomulagið ætti að hámarka hagkvæmni? Það kom mjög vel fram í umræðum að þar væri forgangsmeginregla, þ.e. að sækja hæsta verð trompaði allt í þessu ferli. Það sagði Bankasýslan. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er hins vegar, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að eignarhluturinn var ekki seldur á hæsta mögulega verði þótt Bankasýslan hafi í minnisblaði til ráðherra 20. janúar og kynningum fyrir þingnefndum Alþingis í aðdraganda sölunnar lagt mikla áherslu á meginreglu laga nr. 155/2012 um hagkvæmni. Því er ljóst að önnur sjónarmið voru látin ráða …“ — Ekki hæsta verð.

Munið þið að markmiðið var að selja stóra eignarhluti? Í skýrslunni er farið mjög vel yfir það hvernig það var greinilega ekki markmiðið. Munið þið þegar fjármálaráðherra sagði á opnum fundi að það ætti að byggja ákvörðun um það hverjir mættu kaup á hlutlægum reglum? Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að hlutlægni hafi ekki verið tryggð:

„Beiting framangreindra viðmiða við úthlutunina var ekki skjalfest með kerfisbundnum hætti.“

Einnig kom fram á þessum opna fundi fjárlaganefndar að margra mánaða vinna lægi á bak við ákvarðanatökuna sem gerði það að verkum að hægt væri að segja af eða á um sölu á tæpum tveimur klukkutímum fyrir miðnætti. Það er stórkostlega merkilegt að þessar hlutlægu reglur hafi bara týnst. Ég spurði ráðherra ítrekað um þetta en engin svör komu. Þannig að varðandi þessar hlutlægu reglur, þrátt fyrir margra mánaða undirbúningsvinnu, var ekki hægt að svara: Jú, að sjálfsögðu eigum við þær, við sendum þér þær strax. Þær eru ekki til, annars hefði það verið svarið.

Munið þið þegar jafnræði var tryggt við söluna á Íslandsbanka? En Ríkisendurskoðun segir: Nei, fullt jafnræði bjóðenda var ekki tryggt. Mjög einfalt. Ráðherra fullyrðir að það eina sem átti eftir að gera þegar búið var að ákveða verð og magn hafi verið að tryggja jafnræði, sem var síðan ekki gert. Ráðherra gleymir síðan að vísu að þá þarf að tryggja hæfi hans til að taka þessa ákvörðun. En það er augljóst af skýrslu Ríkisendurskoðunar að jafnræði var ekki tryggt, og það er augljóst af málinu öllu að ráðherra athugaði ekki hæfi sitt. Þess vegna er spurningin um hæfi núna mjög mikilvæg því að hún er ekki hluti af skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er ekkert fjallað um það og við höfum engar vísbendingar umfram það sem virðist vera augljóst, af þeim vísbendingum sem við höfum haft, að hæfið er tvímælalaust lykilspurning, alla vega hvað þátt fjármálaráðherra varðar af því að aðili tengdur fjármálaráðherra var einn af kaupendum. Þetta er augljóst öllum og verður að vera spurning. Við getum ekki bara sópað henni út og hunsað hana. Það er ekki hægt.

Einnig átti að selja stóra hluti til fjárfesta, eins og segir í minnisblaði Bankasýslunnar, með leyfi forseta:

„Bankasýsla ríkisins [telur] að eftirlitsskyldir aðilar eins og lífeyrissjóðir, sjóðir rekstrarfélaga og tryggingafélög hafi bolmagn og áhuga. Þá telur stofnunin að sama gildi um einstaklinga …“

Það er alltaf verið að tala um fjárfesta sem hafa bolmagn, mikið fjármagn til að kaupa, það áttu alltaf að vera kjölfestufjárfestar sem áttu að eiga bankann til framtíðar, koma með mikið magn peninga, ekki að selja fyrir milljón eða 1,1 millj. kr. Salan á eignarhlut í Íslandsbanka átti að byggja á hlutlægu mati, með skýrar verklagsreglur um jafnræði á milli stórra fjárfesta en við endum með sölu með huglægu mati, engu jafnræði, eða það var alla vega ekki tryggt, og fullt af litlum fjárfestum þar sem faðir fjármálaráðherra var meðal kaupanda og það var aldrei hugað að mögulegu vanhæfi. Það komu aldrei upp þær aðstæður, sagði fjármálaráðherra.

Klúðrið hérna er gjörsamlega algjört. Í hverju einasta skrefi koma ábendingar frá Ríkisendurskoðun um að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það er allt sem bendir til þess að í þeim skrefum sem ekki er farið yfir í skýrslunni sé líka eitthvað sem hefði átt að fara betur. Klúður þar líka.