Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem mig langar líka að spyrja um er það sem segir í skýrslunni:

„Í tölvupósti til fjármála- og efnahagsráðuneytis kvaðst Bankasýslan ætla að fjalla um afsláttinn með almennum hætti á kynningarfundum með fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Í glærum ráðuneytisins og stofnunarinnar sem lagðar voru fyrir á fundunum er ekki að finna slíka umfjöllun. Ráðuneytið hefur þó upplýst að fjallað hafi verið um þetta atriði á fundum með þingnefndunum.“

Ég á sæti í fjárlaganefnd líkt og hv. þingmaður. Ég man ekki eftir því að það hafi verið talað um afslætti á fundinum í fjárlaganefnd. Man hv. þingmaður eftir því? Ráðuneytið er að upplýsa um þetta, það getur sagt sitt, en ég man ekki eftir að það hafi verið talað um það og það var ekki á glærunum. Það var aldrei talað um neina afslætti. Það var talað um að fara ætti eftir lögunum og þar er grundvallaratriði meginreglurnar við sölumeðferðina, þar sem fjallað er um hæsta verð, hlutlægni, gagnsæi, jafnræði, samkeppni og það allt. Gæti hv. þingmaður upplýst um þetta?

Annað. Er hann sammála mér um að þetta plagg hérna, skýrsla Ríkisendurskoðunar, sé raunverulega bara undirbúningsplagg eða varða á leiðinni til að Alþingi og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geti tekið ákvörðun um að skipa rannsóknarnefnd Alþingis um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars árið 2022? Þetta er mikilvægt plagg, að mínu mati, til þess. Hvert er álit hv. þingmanns á því? Ég get ekki annað séð að þetta séu eftirhreytur frá hruninu. Við erum með stjórnvöld, fjármálaráðuneytið, fjármálaráðherra — íslensk stjórnsýsla er í sama fari og fyrir hrun. Þetta sýnir að við höfum ekkert lært af hruninu. Það sýnir þetta fúsk, þessi vanhæfni og spilling sem átti sér stað við söluna. (Forseti hringir.) Og varðandi söluna til pabba síns þá hefur ráðherra frumkvæðisskyldu til að tryggja það að hann sé ekki að selja pabba sínum.