Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:15]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessar umræður sem hér hafa verið í allan dag, mjög athyglisverðar. Ég er búinn að fylgjast með hér síðan klukkan tvö í dag og mikið af upplýsingum sem hefur komið fram og ljóst að menn eru ekki alveg sammála í umræðunni, en það var svo sem viðbúið. Mig langar sömuleiðis í upphafi ræðu minnar að þakka fyrir skýrslu Ríkisendurskoðunar um á sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór 22. mars 2022 og var framkvæmd að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins með bréfi 7. apríl síðastliðinn. Ég vil þakka ríkisendurskoðanda og hans starfsfólki fyrir þá miklu vinnu sem hér er fram komin í þessari stjórnsýsluúttekt sem er til umfjöllunar hér í dag.

Skýrslan er að mínu mati afskaplega vel unnin og svarar mörgum þeim spurningum sem upp komu eftir að sölunni lauk og farið var að rýna í framkvæmdina. Sú spurning sem ráðuneyti spyr í umræddu bréfi sínu til Ríkisendurskoðunar þann 7. apríl og er leiðarstef vinnu Ríkisendurskoðunar er hvort umrædd sala hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Einnig er spurt hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda sem borin höfðu verið undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar. Ríkisendurskoðun leitast einnig við að svara þeim spurningum hvort söluferlið samræmdist ákvæðum laga nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, og laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, hvort framkvæmdin hafi verið í samræmi við tillögur og minnisblað Bankasýslu ríkisins um sölumeðferð á eftirstæðum eignarhlut í Íslandsbanka og greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna framhalds á sölu á hlutum ríkisins í bankanum, hvernig endanlegt söluverð og stærð eignarhlutarins sem var seldur voru ákveðin og hvernig staðið var að úthlutun hlutabréfa til fjárfesta í söluferlinu.

Að mínu mati eru svör ríkisendurskoðanda skýr hvað þessa þætti varðar en ég mun koma nánar inn á það hér á eftir. Það skal þó tekið fram, líkt og stofnunin gerir sjálf í inngangi skýrslunnar, að ekki er tekin afstaða til þess hvort réttmætt hafi verið að selja hlut ríkisins í bankanum og hvort það hafi verið gert á réttum tímapunkti, enda er þar um pólitískar spurningar að ræða. Í raun og veru hefði það ekki átt að koma neinum á óvart að sala stóð til á árinu 2022, enda um það fjallað í fjárlagafrumvarpi ársins fyrir 2022 og það hafði komið margsinnis fram í máli fjármála- og efnahagsráðherra að halda ætti áfram með það söluferli sem hófst sumarið 2021 þegar 35% hlutur ríkisins var seldur í opnu söluferli til almennings. Niðurstaða þess útboðs var 79 kr. á hvern hlut sem þótti ásættanlegt á þeim tíma. Gagnrýni á frumútboðið kom ekki fram fyrr en að loknu síðara útboðinu þar sem lokaniðurstaðan var 117 kr. á hlut og snerist þá gagnrýnin um það hvort bréf í bankanum hefðu verið seld á of lágu verði.

Virðulegur forseti. Ýmsar athugasemdir koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem okkur sem hér erum inni ber að taka alvarlega og tryggja með eins góðum hætti og hægt er að ekki komi fyrir aftur. Skýrslan er gott og mikilvægt plagg því ljóst er að 22,5% hlutur ríkisins í Íslandsbanka er ekki síðasti hlutur ríkisins sem verður seldur og því er mikilvægt fyrir okkur á Alþingi og fastanefndir þingsins að rýna skýrsluna vel og þær athugasemdir sem þar birtast. Sá sem hér stendur á sæti í fjárlaganefnd þingsins og fékk kynningu frá Bankasýslu ríkisins þann 21. febrúar sl., viku fyrir umrætt útboð. Af þeirri kynningu mátti ráða að um mjög hefðbundið ferli væri að ræða en þess ber þó að geta að sá sem hér stendur hefur hvorki reynslu af því að selja banka né af störfum á fjármálamörkuðum. Gagnrýni Ríkisendurskoðunar beinist í einum lið að upplýsingagjöf til fastanefnda Alþingis sem og til almennings, að hún hafi ekki verið til þess fallin að varpa nægilegu ljósi á raunverulegt eðli tilboðsfyrirkomulagsins. Því ber þó að halda til haga að í minnisblaði Bankasýslu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins voru þrjár leiðir lagðar til; sala með tilboðsfyrirkomulagi, sala með fullmarkaðssettu útboð og sala með miðlunaráætlun og Bankasýslan lagði til tilboðsfyrirkomulagið eins og hefur komið hér fram.

Eins og kemur fram í inngangi skýrslunnar hefur Fjármálaeftirlit Seðlabankans nú hlutverki að gegna þegar kemur að því hvort vinnubrögð umsjónaraðila söluferlisins, söluráðgjafa eða söluaðila hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur, þar á meðal hvort sölunni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjárfestum. Heildarmynd þessa máls mun því ekki skýrast fyrr en þeirri vinnu hefur verið lokið og er afar brýnt að henni sé hraðað eins og kostur er.

Virðulegur forseti. Það er afar mikilvægt að við vöndum til verka og læra af mistökum fortíðarinnar. Því er úttekt sem þessi nauðsynleg til að benda á það sem betur má fara í okkar vinnu og undirstofnana okkar.