Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka í marsmánuði sl. var þriðja stærsta hlutafjárútboð í Íslandssögunni. Söluandvirðið var 52,7 milljarða kr. og mikilvægi þess að vel yrði staðið að sölunni var því augljóst almannahagsmunamál. Lög um söluferlið eru kjarnyrt og þau eru skýr. Þar er áhersla lögð á heilbrigða samkeppni, jafnræði aðila, gagnsæi og hagkvæmni. Niðurstaðan í þessum mikla almannahagsmunamáli varð hins vegar sú að 83% þjóðarinnar voru óánægð með niðurstöðuna. 75% þjóðarinnar vildu að rannsóknarnefnd fengi að rýna málið. Eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt í gær voru svör formanna ríkisstjórnarflokkanna einföld en skýr skilaboð um að pólitíkin beri enga ábyrgð. Bankasýslan beri ein alla ábyrgð, stofnun sem framfylgdi stefnu ríkisstjórnarinnar. Við höfum flest kynnst þeim stjórnunarstíl að yfirmaðurinn sparki í undirmennina. Sá stíll er ekki stórmannlegur, en það er það sem er að gerast hér.

Fyrir páskafrí vakti athygli þegar Lilja Alfreðsdóttir, hæstv. viðskiptaráðherra, sagði í fjölmiðlum, með leyfi forseta:

„Ég er þó ekki á því að hægt sé að skella skuldinni alfarið á stjórnendur Bankasýslunnar og þykir miður að málið sé einfaldað þannig. Ábyrgðin hlýtur að vera stjórnmálamanna sem tóku ákvörðun í málinu.“

En í gær heyrðum við hér í þingsal hæstv. forsætisráðherra einmitt einfalda málið á þennan máta og enn hefur lykilspurningum um ákvarðanir ráðherranna við söluna ekki verið svarað. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru margvíslegar athugasemdir sem mikilvægt er að fái rýni, athugasemdir sem flestar lúta að framkvæmdaraðilanum. En á meðal þyngstu athugasemdanna í skýrslunni er umfjöllun um að fjármálaráðuneytið hafi gefið Alþingi misvísandi upplýsingar um mikilvæg atriði í aðdraganda sölunnar. Það er mjög alvarleg gagnrýni, því hvað er verið að segja þar? Jú, að framkvæmdarvaldið komi ekki alveg réttum upplýsingum til löggjafans í aðdraganda sölunnar. Þetta er látlaus setning frá Ríkisendurskoðun en gagnrýnin er blýþung.

Forseti. Mig langar aðeins til að rifja upp umræðuna í vor, strax í kjölfar sölunnar. Við erum oft svo fljót að gleyma. Um páskana gerðist það að ríkisstjórnin virtist hverfa sjónum í nokkra daga. Þá var gagnrýnin orðin ansi þung í samfélagsumræðunni. Ríkisstjórnin sá viðbrögð fólksins í landinu eftir að listi yfir kaupendur að bréfum Íslandsbanka var birtur og listinn framkallaði mikla reiði. Það náðist ekki í formenn ríkisstjórnarflokkanna og ráðherra ríkisstjórnarinnar en þögnin var síðan rofin þegar birtist fréttatilkynning um að leggja ætti Bankasýslunni niður vegna alls þess sem aflaga hafði farið við söluna. Og enn er samtalið ekki komið lengra en svo að ríkisstjórnin sparkar í undirmennina en vill ekki skoða málið neitt frekar.

Við munum eftir því að engin sérstök rýni var á hæfi þeirra sem fengu að kaupa. Rökin voru þau að það þjónaði almannahagsmunum að fá inn fagfjárfesta, þeir væru að fjárfesta til lengri tíma og óvissa væri um hvernig verð á bréfum myndi þróast vikurnar á eftir. Það væru hagsmunir bankans og almennings að fá inn stærri fagfjárfesta. En þegar listi yfir kaupendur var birtur sást að sumir kaupendur keyptu fyrir mjög lágar upphæðir og seldu svo strax dagana á eftir. Við sáum líka að á meðal kaupenda voru meira að segja söluaðilar.

Auðvitað er mikilvægt að skoða framkvæmd útboðsins, t.d. hvaða reglur voru settar fyrir söluaðila og hvernig þeim var framfylgt. En það er ekki hægt að slíta ábyrgðarkeðjuna eins og ríkisstjórnin ætlar að gera og það þarf auðvitað líka að ræða og skoða pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Með hvaða rökum gerðist það t.d. að það varð ofan á í ráðherranefnd um efnahagsmál að fara í lokað útboð? Síðast í dag tjáir hæstv. viðskiptaráðherra sig um það að hún hafi verið mótfallin þessari leið. Hún situr í þessari nefnd með forsætisráðherra og fjármálaráðherra, nefndinni sem tók þá ákvörðun. Þetta er alger grundvallarþáttur og varðar ábyrgð þeirra sem lögðu línurnar. En þetta verður ekki skoðað því að ríkisstjórnin vill bara velta við öllum steinum hjá þeim sem vinna á gólfinu, öllum litlu steinunum. Hins vegar, samkvæmt því sem viðskiptaráðherra er að segja okkur, var ekki einhugur í ríkisstjórninni sjálfri, ekki einhugur um það hvernig ætti að standa að sölunni. Með hvaða rökum féllst forsætisráðherra á þá aðferð sem fjármálaráðherra lagði til um fyrirkomulag sölunnar? Hverjar voru umræðurnar í þessari nefnd?

Aðrar spurningar í málinu snúast um hæfi fjármálaráðherra. Átti hann að víkja á einhverju stigi málsins vegna vanhæfis? Um þetta hefur ekki verið fjallað. Ríkisstjórnin hefur þvert á móti talið að það sé fullnægjandi að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið skoði framkvæmdina, að við látum okkur nægja að skoða útfærsluna á pólitískri ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Þar erum við kannski komin að vandanum við annars ágæta skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hún er ágætlega unnin en þar vantar stór svör. Skýrslan er ágæt, svo langt sem hún nær. Vandinn við hana er einfaldlega það sem hún segir okkur ekki, það sem hún fjallar ekki um. Í skýrslunni er ekkert fjallað um val ríkisstjórnarinnar sjálfrar á söluaðferð, ekkert um tímasetningu sölu, ekkert um kostnað við ráðgjöf, ekkert um hæfi fjármálaráðherra, ekkert um framsal fjármálaráðherra á ákvörðunum við ferlið, t.d. um úthlutun til kaupenda. Það er ekkert fjallað um þær pólitísku ákvarðanir sem voru teknar í aðdraganda sölunnar, ekkert fjallað um ágreining milli ríkisstjórnarflokkanna eða hvort hann var yfirleitt fyrir hendi. Ríkisstjórnin er ekki samstiga um það opinberlega. Við vitum ekkert hvernig samtalið var í þessari ráðherranefnd þar sem allar stærstu ákvarðanir ferlisins voru teknar.

Ég er búin að víkja aðeins að þeim þætti að ríkisstjórnin telur fullnægjandi að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið rýni málið. Mig langar aðeins til að fjalla um það að Ríkisendurskoðun er trúnaðarmaður Alþingis, embætti sem þarf að vera sjálfstætt og aðskilið frá framkvæmdarvaldinu. Liður í því að vera sjálfstæð er að stofnunin fari sjálf með sér dagskrárvald um hvaða mál embættið skoðar og hvenær. Þetta er grundvallaratriði. Hér var það hins vegar fjármálaráðherra sjálfur sem skrifaði bréf til Ríkisendurskoðunar og óskaði eftir stjórnsýsluúttekt. Það er vert að hafa í huga að áherslan í bréfi ráðherra til Ríkisendurskoðunar er öll á framkvæmd sölunnar, ekkert um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Degi síðar varð ríkisendurskoðandi við ósk ráðherrans og tilkynnti að hann myndi hefja úttekt á framkvæmd sölunnar. Bréf ráðherra til Ríkisendurskoðunar með ósk um að embættið skoði málið eitt og sér — ég sé þetta sem atriði sem vegur að sjálfstæði embættisins. Ég var nýlega með þingmönnum í Noregi þar sem við heimsóttum embætti ríkisendurskoðanda þar í landi og þar var ofboðslega mikill þungi í orðum ríkisendurskoðanda þar og áhersla á mikilvægi sjálfstæðisins og augljóst af svörum hans að þar í landi myndi það ekki gerast að ráðherra færi að kalla eftir úttekt, að ráðherra færi að leggja eftirlitsaðilanum línurnar um það hvenær ætti að hefjast handa og með hvaða hætti. Forsætisráðherra talaði hér í gær eins og það segði mikla sögu um vilja hæstv. fjármálaráðherra að hann hefði sjálfur skrifað þetta bréf. Hin hliðin er auðvitað sú að þarna er ráðherra kominn með ákveðið dagskrárvald hjá ríkisendurskoðanda, dagskrárvald hjá þeim aðila sem fer með eftirlit með gagnvart ráðherranum. Þetta er mikið kjarnaatriði. Ríkisstjórnarflokkarnir vildu fara þá leið að úttekt málsins varðaði eingöngu framkvæmdina, ekki pólitískar ákvarðanir. Bréf fjármálaráðherra verður svo til þess að vilji 75% þjóðarinnar um rannsóknarnefnd er að engu orðinn.

Forseti. Augljóst er að ákvarðanir og umræður ríkisstjórnarinnar í aðdraganda sölunnar eru þeir þættir sem mestu máli skipta. Í umræðum á Alþingi strax í vor vorum við mörg sem bentum á að skýrsla Ríkisendurskoðunar myndi aldrei taka á pólitískum álitaefnum. Það er einfaldlega ekki verkefni embættisins og þessar athugasemdir okkar hafa ekki með traust til Ríkisendurskoðunar að gera. Rannsóknarnefnd getur hins vegar tekið á þessum álitaefnum. Það er því miður ekkert nýtt eða ekkert fréttnæmt við það að svörin vantar í þessa skýrslu um það sem máli skiptir. Það lá alltaf fyrir að yrði niðurstaðan. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar sjálfrar strax í vor sýndu að forystumenn hennar skildu að traust til hennar var ekkert. Tvær ákvarðanir, að hætta við sölu og að leggja Bankasýsluna niður, sýna þetta alveg ágætlega (Forseti hringir.) og niðurstaðan í málinu er ekki minnst vonbrigði fyrir þau okkar sem styðja bankasöluna, sem telja að ríkið eigi ekki að reka þennan banka. Með áframhaldandi sölu (Forseti hringir.) væri hægt að sækja tugi milljarða til uppbyggingar, til niðurgreiðslu skulda og í innviðauppbyggingu. Eftir stendur að það er farið vegna þess að nauðsynlegt traust til ríkisstjórnarinnar er ekki lengur fyrir hendi.