Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:51]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir að þegar tilboð í eignarhlut liggi fyrir skuli Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Svo segir í ákvæðinu, með leyfi forseta:

„Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Ég vil fá að varpa hérna fram tveimur spurningum. Annars vegar: Telur hv. þingmaður það eðlilegt og til eftirbreytni að samþykkja svona meiri háttar ákvörðun um ráðstöfun ríkiseigna án þess að ráðherra afli raunverulega þeirra upplýsinga sem er getið í þessu sama ákvæði og leggi mat á þær upplýsingar? Í öðru lagi: Telur hv. þingmaður það almennt eðlilegt í stjórnkerfinu — og ég spyr vegna þess að nú styttist í að hv. þingmaður taki einmitt við ráðherraembætti — og til eftirbreytni að ráðherrar taki risastórar ákvarðanir um hagsmuni ríkissjóðs, um hagsmuni almennings, án þess að það fari fram lágmarksrannsókn á þeim atriðum sem eru undir og án þess að ráðherra afli sér þeirra upplýsinga sem getið er í viðkomandi lögum að ráðherra eigi að byggja ákvörðun sína á?