Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:53]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 11. þm. Reykv. n. fyrir fyrir andsvarið. Hann nefnir hér 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, hvort það sé eðlilegt að ráðherra taki ákvörðun um það og hvort það sé til eftirbreytni, þ.e. sem varðar það sem þingmaðurinn las upp úr lögunum, að ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins. Samkvæmt þessum lögum er það, já, eðlilegt. Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvort það sé til eftirbreytni og verji hagsmuni almennings, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, að ráðherra hafi samþykkt þetta án rannsóknar og án þess að afla upplýsinga. Er það ekki rétt skilið hjá mér? Ráðherra lagði sjálfur til í vor að fá Ríkisendurskoðun að borðinu til þess að fara yfir söluferlið. Það hefur nú verið gert og við erum hér með skýrslu ríkisendurskoðanda og þar, eins og kom fram í máli mínu, eru dregnar fram margvíslegar athugasemdir sem snúa ekki síst að forminu eða hvernig staðið var að upplýsingagjöf og ferlinu við söluna. Það er algjörlega yfir vafa hafið í þessari niðurstöðu að ráðherra hefur ekki brotið nein lög í þessu ferli.