Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:59]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrún Hafsteinsdóttir fyrir áhugaverða ræðu. Það var auðvitað sérlega áhugavert að heyra útlistun hv. þingmanns á því að traust sé algjört lykilatriði þegar kemur að bankastarfsemi, fjármálakerfinu og öllu því sem því tilheyrir. Þar er ég sammála hv. þingmanni. Þetta er algjört lykilatriði og ég hef verið að rekja það í umræðunum í dag að traust og orðspor er það dýrmætasta sem við eigum á íslenskum fjármálamarkaði og ef það glatast er orðið erfitt að starfa þar. Það liggur bara í hlutarins eðli.

Auðvitað er það þannig að þjóðin var spurð, eftir að allt sprakk síðasta vor, hvað henni fyndist um þessa sölu. Þar kom ljóslega fram að 80% þjóðarinnar töldu að illa hefði verið staðið að henni og að 75% þjóðarinnar töldu að það ætti að stofna rannsóknarnefnd Alþingis. Þetta segir okkur auðvitað að þarna er allt traust farið. Mér finnst þetta alveg ótrúlega mikilvægt atriði í þessari umræðu vegna þess að ég og hv. þingmaður erum sammála um að ríkið eigi ekki að standa í samkeppnisrekstri, áhættusömum bankarekstri til lengri tíma, og ekki síst, eins og var ágætlega rakið í ræðunni, þegar fjármálageirinn er í hröðu breytingaferli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig getum við komið því heim og saman að klára söluna á Íslandsbanka á næsta ári þegar ekkert traust er ríkjandi til þess sem gert hefur verið í sölunni sem hér er undir? Þarf ekki að fara af stað einhver mikil og djúp vinna með kannski svolítið öðru lagi en reynt hefur verið hingað til, til þess að endurvinna traustið áður en við höldum áfram að selja eigurnar? Er hægt að selja restina af Íslandsbanka fyrr en traust er komið?