Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:01]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og ég tek svo innilega undir þau orð hv. þingmanns að traust sé ekki bara mikilvægt í fjármálaheiminum. Traust er það sem við byggjum öll samskipti okkar á, alveg sama hvar þau eru, hvort sem það eru persónuleg samskipti okkar á milli hér í þinginu eða í fjármálaheiminum. Það er ekki gott að vera þar sem ekki ríkir traust.

Hv. þingmaður spyr um það hvernig við ætlum að endurreisa traust til áframhaldandi sölu á hlutum í Íslandsbanka. Við erum einmitt að því. Við erum að því vegna þess að það virtist vera strax í upphafi eins og einhverjir annmarkar væru á ferlinu. Þess vegna fór fjármála- og efnahagsráðherra fram á það að Ríkisendurskoðun myndi fara yfir ferlið, sem hún hefur nú gert og skilað skýrslu. Þingið er með málið í meðförum. Skýrslan er í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hv. þingmaður situr einmitt í og tekur þátt í. Þar mun verða farið yfir skýrsluna og farið yfir málin og við erum örugglega ekki búin að segja okkar síðasta orð hvað þetta varðar. En þetta er allt liður í því að byggja upp traust, að traustið fari ekki svo við getum haldið áfram að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka. Ég held að það skipti mjög miklu máli og að lokum vil ég segja að mér þykir svolítið hryggilegt hvað hér er talað mikið um hvað allt hafi farið úrskeiðis þegar útboðið í raun — í öllu samhengi hlutanna og miðað við útboð annarra banka í Evrópu — gekk vel.