Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:06]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Mér finnst mjög áhugavert að heyra hann tala um að það sé ekki hægt að halda áfram með söluna á Íslandsbanka vegna þess að allt traust sé farið, þrátt fyrir að 108 milljarðar hafi komið í kassa ríkisins fyrir þann hluta sem nú þegar er búið að selja. Það þykir flestum ekki vera slæm viðskipti, svo því sé haldið til haga. Það er auðvitað sérstaklega áhugavert að heyra frá þingmanni flokks sem vill kenna sig við frjálslyndi að ekki sé traust hjá þjóðinni til að klára sölu Íslandsbanka, en vegna þess að þjóðin treysti ríkinu best til að reka fjármála- og bankastarfsemi þá eigi ríkið áfram að halda á þessu. Mér finnst alveg með ólíkindum að traust þjóðarinnar sé til ríkisins til að reka banka, og við skulum þá endilega halda því áfram að ríkið reki banka frekar en að þeir séu einkavæddir og aðrir en ríkið látnir sjá um samkeppnisstarfsemi.