Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:17]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja ræðu mína á að þakka ríkisendurskoðanda, hans starfsfólki og þeim sem tóku þátt í vinnunni fyrir þessa góðu skýrslu sem skilað var inn til þingsins. Mig langar að koma inn á nokkur atriði í ræðu minni. Til að byrja með vil ég nefna að eins og flestir þekkja þá kemur fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að ríkissjóður muni halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu. Bankasýslunni er síðan falið samkvæmt lögum að annast söluferli og gerir tillögu til ráðherra um frekari sölu á eignarhlutum ríkisins í bankanum í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga. Hér erum við að tala um að ákvarðanir séu teknar í hinni svokölluðu armslengd frá ráðherra og stjórnmálunum almennt. Það er mikilvægt að halda því til haga að með því er verið að koma í veg fyrir pólitísk afskipti, að samskipti milli ráðherra annars vegar og Bankasýslunnar hins vegar séu í lágmarki og takmörkuð. Í lögum um Bankasýsluna segir að Bankasýsla ríkisins skuli undirbúa söluna, leita tilboða í eignarhlut, meta tilboð, hafa umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast síðan samningagerð.

Fyrir þeim lögum mælti hv. þm. Oddný Harðardóttir, þá fjármálaráðherra, þar sem markmiðið var, eins og fyrr segir, að festa í sessi armslengd milli stjórnmálamanna og faglegrar skipaðrar Bankasýslu við sölu og rekstur á fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Þannig segir m.a. í greinargerð Oddnýjar, með leyfi forseta:

„Með því að fela sérstakri ríkisstofnun, Bankasýslu ríkisins, meðferð eignarhluta ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum og að koma fram með tillögur til ráðherra um sölu þeirra eignarhluta var ætlunin að tryggja hlutlægni við meðferð þessara mála.“

Frá hruni hefur einmitt verið kallað eftir minni afskiptum ráðherra og stjórnmálamanna þegar kemur að málum sem þessum og er það gott og vel. En þá verða aðilar sem eru fengnir til ákveðinna verka að standa undir þeirri ábyrgð sem þeim er síðan falin. Með lögum er Bankasýslunni, eins og fyrr segir, falið að annast söluferli. Ákvarðanir að þessu leyti eru því teknar í armslengd frá ráðherra og það er mikilvægt að þetta komi skýrt og oft fram. Samskipti ráðherra og Bankasýslunnar eru síðan takmörkuð í útboðinu.

Hér hefur komið fram í umræðum að ráðherra hafi átt að yfirfara hvern og einn tilboðsgjafa, með öðrum orðum í raun hverjir séu honum þóknanlegir og hverjir ekki. Það sjá allir sem vilja að með slíku værum við að bjóða upp á stórkostlega pólitíska spillingu. Við getum öll verið sammála um að kynningin og upplýsingamiðlun hefði mátt vera betri og skýrari í aðdraganda sölu annars áfanga á bankanum. Það kemur skýrt fram í skýrslunni, þá sérstaklega varðandi upplýsingagjöf til þings og almennings og svo auðvitað þegar við horfum til framkvæmdarinnar sjálfrar. Í ljósi skýrslunnar og í samræmi við það sem hér hefur komið fram áður þá erum við sammála um að ýmsir annmarkar hafi verið á því hvernig Bankasýslan vann úr málinu, tilboðsaðferðafræðinni og meðförum hennar sem stofnunin sjálf lagði til að yrði farin í öllu þessu ferli og er nokkuð ítarlega rakin í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu frá ríkisendurskoðanda.

Það mikilvægasta í öllu þessu þykir mér að þrátt fyrir að ríkisendurskoðandi telji að ýmsir annmarkar séu á ferlinu þá dregur hann ekki í efa og er mjög skýr í því að fjárhagsleg niðurstaða söluferlis á hlut í Íslandsbanka hafi verið ríkissjóði mjög hagfelld. Þetta eru orð ríkisendurskoðanda sjálfs og í fréttum dagsins bætti hann því við að hann hefði ekki orðið þess áskynja að lög hefðu verið brotin þegar 22,5% hlutur var seldur, enda hefði hann bent á það í skýrslunni ef svo hefði verið.

Tilboðsaðferðin er þekkt fyrirkomulag. Því má segja að Bankasýslan hafi ekki verið að finna upp hjólið. Það eru til erlend dæmi um nýtingu þessarar aðferðafræði sem farin var. Aðferðin hefur verið notuð með nákvæmlega sama hætti og hér um ræðir, þ.e. með sömu söluaðferð og sama tímaramma þótt afslátturinn hafi verið talsvert meiri en í tilfelli sölunnar á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Aðferðin er því alþekkt erlendis frá og er beitt víða við sölu, bæði hjá ríkissjóðum og öðrum. Til að mynda hefur þessi aðferð verið notuð við sölu eignarhluta í Arion banka og er talin vera ein algengasta aðferð sem hluthafar geta nýtt sér við sölu á stórum hlutum í skráðum félögum á evrópskum markaði. Því má segja að ákvörðun um að selja hlut í Íslandsbanka og fylgja ráðgjöf Bankasýslunnar um hvaða aðferðafræði skyldi fylgt ætti að vera hafin yfir nánast allan vafa.

Samkvæmt lögum eiga nefndir Alþingis að vera þátttakendur í ákvörðunarferli um sölumeðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Efnahags- og viðskiptanefnd, þar sem sá sem hér stendur á sæti, veitti m.a. umsögn í aðdraganda sölunnar, eins og fram kemur í skýrslunni, sem er dagsett 9. mars 2022. Þar eru tiltekin ýmis atriði, bæði hvað varðar tímasetningu sölunnar og að horfa verði til ýmissa þátta, m.a. alheimsfaraldurs og innrásar Rússa í Úkraínu sem var þá nýtilkomin.

Líkt og fram kemur í ábendingum Ríkisendurskoðunar verður að tryggja að þær þingnefndir sem fjalla um fyrirhugaða sölu á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum séu upplýstar með ítarlegum og fullnægjandi hætti um eðli þeirra söluaðferðar sem notast á við og hvaða meginreglur og markmið verði í forgangi hverju sinni. Það er alveg ljóst af þeim ábendingum sem fram koma í skýrslu ríkisendurskoðanda til Alþingis að ýmislegt hefði mátt betur fara og um það held ég að við séum langflest sammála. Hann tekur þó ekki afstöðu til þess hvort það hafi verið rétt að selja á þessum tímapunkti eða öðrum. Einnig kemur fram að verið sé að skoða hvort sölunni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjárfestum.

Því vil ég að lokum benda á að skýrslan hefur ekki enn fengið fullnaðarumfjöllun hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þá eru enn ýmsir þættir er lúta að hluta söluaðila enn í skoðun hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Því er enn verið að skoða ýmsa þætti og þess vegna ekki tímabært að tala um ákvörðun um að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd Alþingis. Ég ítreka að hér erum við með mjög vandaða stjórnsýsluúttekt varðandi þessa sölu að mínu mati og held ég að allir geti tekið ýmislegt þar til sín og lært af reynslunni.