Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:46]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef lögmaður í málflutningi myndi hafa uppi ávirðingar á hendur öðrum málsaðilum eða gagnvart öðrum lögmanni sem væri í málflutningi gegn honum og þær væru órökstuddar og ættu sér ekki viðhlítandi stoð, þá yrði hann væntanlega áminntur. Ég sé enga ástæðu til þess að gera minni kröfur hér í þessum sal sem telja má í raun og veru kjarnann í okkar lýðveldi og þetta er í rauninni hásæti tjáningarfrelsisins sem ég stend í núna tímabundið. Þannig að ég vil gera mjög miklar kröfur til þingmanna um að þeir gæti orða sinna þegar þeir standa hér og beri virðingu fyrir þessum ræðustól, virðingu fyrir lýðræðinu okkar og skrumskæli það ekki og umbreyti því í einhvers konar innantómt tilfinningahjal og ávirðingar sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Ég vil kannski líka segja það, fyrst ég er nú hér, að eitt besta orð sem Þórbergur Þórðarson lagði til íslensks máls var hugtakið úthygli. Með úthygli, en ekki athygli, er verið að beina huga manns frá kjarna allra hluta. Því miður, eftir að hafa hlustað á ræður hér í dag, er ég ekki viss um að þeim tíma mínum hafi verið sérlega vel varið því að þetta hefur einkennst af allt of mikilli úthygli en ekki að þeim kjarna sem ég var að reyna að draga fram í minni ræðu. Ég vil bara hvetja enn og aftur til vandaðrar, málefnalegrar umræðu og til virðingar fyrir kjósendum og almenningi þar sem valdið í rauninni býr.