Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:49]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil sannarlega gera þá kröfu til mín að ég leiti í mínum störfum og mínum ræðum að sannleikanum en reyni ekki að breiða yfir hann og afvegaleiða fólk sem á mig hlustar, í því skyni að upphefja sjálfan mig eða koma sjálfum mér áfram í heiminum. Þessi umræða sem hér á sér stað milli mín og hv. þm. Björns Levís á sér rætur sem rekja má aftur til Aþenu þar sem tókust á annars vegar sófistar sem iðkuðu mælskulist og mælskubrögð í þeim tilgangi að fá fólk til fylgis við sig og beittu til þess ýmsum aðferðum, svo sem tilfinningarökum, og svo hins vegar þeir sem Sókrates var fulltrúi fyrir, sem er sannleiksleit í anda heimspekinnar. Áhorfendur, almenningur, þingmenn mega sannarlega gera það upp við sjálfa sig í hvorri fylkingunni þeir vilja vera, en ég hef markað mér þann stað að vera fylgismaður Sókratesar í þessu. En öðrum er að sjálfsögðu frjálst að gera það sem þeim sýnist. — Ég hef lokið máli mínu.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á að ávarpa þingmenn með fullu nafni eða með kjördæmisnúmeri.)