Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:50]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og mig langar að fara aðeins yfir nokkur atriði.

Upphlaup. Hér er búið að eyða heilum degi. Skrumskæling. Við erum að afvegaleiða. Hér er innantómt tilfinningahjal og sjálfsupphafning. Þetta var ræða hv. þingmanns út í gegn. Nánast var ekkert farið í efnisatriði skýrslunnar en haldinn langur fyrirlestur um það að stjórnarandstaðan væri ótrúlega ómálefnaleg með því að vera með eindæmum ómálefnalegur sjálfur. Ég hvet hv. þingmann til að lesa yfir það sem hann var að segja hér í ræðustól. Að kalla dagskrá þingsins hér í dag upphlaup, þar sem við erum að ræða þessa skýrslu, er auðvitað ekki gott og að gera það með einhverri réttlætingu til hins og þessa í Aþenu til forna. Í alvöru talað þá náum við ekki upp virðingu þingsins með þessu móti. Það er ekki stjórnarandstöðunni að kenna og umræðunni hér í dag að virðing þingsins hefur farið þverrandi. Ætli skýringarinnar sé ekki frekar að leita í ákvörðunum meiri hlutans á þingi á hverjum tíma og hverjar þær eru, hvernig farið er með vald frekar en hvernig talað er í einstökum ræðum. Ég ætla að leyfa mér að segja það að þótt við getum tekist á um efnisatriði og hugmyndir og eigum að gera það — og eigum auðvitað að sýna hvert öðru virðingu — þá getum við ekki komið hér upp og gagnrýnt einhvern annan fyrir að vera ómálefnalegur með því að gera það með svona ótrúlega ómálefnalegum hætti. Svona ýtum við umræðunni ekki upp og færum hana á æðra plan. Svona nýtum við ekki þennan vettvang sem þá málstofu sem hann svo sannarlega er. Hér verið að rökræða um gríðarlega umdeilt mál. Það er eðlilegt að skoðanaskiptin verði hvöss, en mér finnst orðanotkunin sem hér er notuð um málflutning stjórnarandstöðunnar ekki ná nokkurri átt.