Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:52]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú ákvað hv. þm. Sigmar Guðmundsson að móðgast við þann sem hér stendur og það þýðir í raun og veru að rökræðunni sé lokið. Þegar menn fara að leika þennan leik er rökræðunni lokið. Ég var afskaplega málefnalegur í því sem ég sagði. Ég las hér upp úr skýrslunni og reyndi að kjarna það sem ég tel að blasi við, að engin innistæða eða undirstaða sé fyrir allri þessari umræðu sem hefur staðið yfir í allan dag. Það er engin undirstaða undir mörg þau hástemmdu ummæli sem hér hafa fallið, m.a. af hálfu hv. þm. Sigmars Guðmundssonar sem sagði fyrr í dag að það væri ekki okkar að læra af þessu heldur ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er orðrétt tilvitnun í hv. þm. Sigmar Guðmundsson. Ég myndi segja, herra forseti, að þegar svona skjal kemur fram sem er beint til þingsins þá hljóti það þvert á móti að vera skylda allra þingmanna að lesa skjalið og draga viðeigandi lærdóm af því. Það er enginn stikkfrí í þessu. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að sigla þessari skútu í einhvers konar farsæla höfn. Þessi móðgunarræða hv. þm. Sigmars Guðmundssonar átti ekki rétt á sér. Ég hef ekki sagt neitt hér sem er til þess fallið að taka svona alvarlega inn á sig. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt og dreg ekkert af því til baka.