Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:54]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta ætlar að verða hressandi endir á eftirminnilegum degi, það held ég að verði nú að segjast eins og er. Hv. þingmaður vísaði til þess sem ég sagði. Það sem ég vísa til í ræðu minni er að við erum að ræða hér um verk ríkisstjórnarinnar. Skýrslan tekur út verk ríkisstjórnarinnar, ekki stjórnarandstöðunnar heldur ríkisstjórnarinnar. Þegar ráðherrar koma svo í pontu og segja að við verðum öll að læra af þessu þá er það auðvitað svo að þeir sem eru gerendur í málinu eiga að draga lærdóm. Það er ekki hægt að taka þá sem hafa ekkert um málið að segja og draga þá einhvern veginn inn í ábyrgðina. Það er ekki góður staður til að vera á ef menn eru komnir þangað.

Það má alveg tala um þetta sem einhvers konar móðgunargirni. Ég get bara ekki skilið yfirlætið sem er í því að halda hér langa ræðu um hvað aðrir séu ómálefnalegir með því að nota svona orð eins og voru notuð. Það er bara ágætt að hv. þingmaður standi við þau orð og honum er það frjálst. Það er heldur ekkert sem bannar mönnum að tala svona en það má svo sannarlega gera athugasemdir við það þegar málum er stillt upp með þessum hætti.

Eins og ég nefndi í fyrra andsvari er þessi vettvangur til þess að takast á. Þessar skylmingar mega alveg á köflum vera heitar og stundum tilfinningaþrungnar. Það þýðir hins vegar ekki að það eigi að nota orð eins og upphlaup, upphafningu, sjálfsupphafningu og annað í þeim dúr. Ég geri athugasemdir við þá orðanotkun. Ég geri ekki athugasemd við að hv. þingmaður sé ósammála því sem stjórnarandstaðan hefur verið að segja. Ég er nefnilega sammála því sem hv. þingmaður sagði að við þurfum að vanda okkur aðeins í umræðunni, en þá þurfum við kannski líka öll að taka það til okkar. Það er ekki sama hvernig við tölum sjálf og ég skal líka alveg taka það til mín. Stundum verður manni heitt í hamsi hérna uppi. En ég stend við að þessi ræða hv. þingmanns hafi ekki verið að hjálpa neinum.