Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:56]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í hinum fullkomna heimi, ef ég fæ að koma aftur í þennan ræðustól sem er alls ekki víst að ég beri gæfu til, gæti ég haldið langa ræðu um hugsanlegar ástæður þess að þjóðþing Íslendinga verji heilum degi í umræðu um þessa skýrslu án tilefnis til svo langvinnrar umræðu að mínu mati. Tilgáta mín á þessum tímapunkti er sú að ég velti fyrir mér hvort það geti mögulega verið vegna þess að þingið sé búið að reyta af sér völdin og verkefnin í þeim mæli að það standi í rauninni eftir svo mikill tími sem hægt er að fylla með svona umræðu.

Staðreyndin er þessi: Lagasetningarvaldið hefur að miklu leyti verið afhent Evrópusambandinu. Það er staðreynd. Á þingnefndarfundi í gær, í fjárlaganefnd, rann upp fyrir mér að fjárveitingavaldið sem á að vera hjá Alþingi er í rauninni líka komið út í bæ til einhverra embættismanna. Það er verið að biðja fjárlaganefnd um að stimpla útgjöld úr ríkissjóði, greiðslur sem voru farnar út upp á tugi milljarða króna. Það var verið að tala um fjárhæðir í fjáraukalögum upp á 74 milljarða sem að stærstum hluta hafa þegar verið greiddar út. Alþingi er orðið að einhvers konar stimpilstofnun hvað varðar fjárveitingar, löggjöf og innleiðingu á reglum. Síðan er verið að fylla upp í tímann með umræðu sem hefði í sjálfu sér verið hægt að klára á þremur tímum.

Ég vil að lokum þakka hv. þingmanni Sigmari Guðmundssyni fyrir hans orð og ég biðst forláts ef eitthvað sem ég sagði var til þess fallið að særa hann persónulega. Mér er hlýtt til hv. þm. Sigmars Guðmundssonar.