153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

skýrsla ríkisendurskoðunar um sölu Íslandsbanka.

[15:07]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki betur en að það sé pólitískur leikur að draga Icesave inn í umræðuna um sölu á Íslandsbanka frá því í vor. Um hvað erum við að tala hérna? Af hverju getum við ekki rætt um verklagið í þessu ferli? Það er öll þjóðin að fylgjast með hvernig þið bregðist við verklagi í þessu ferli og þið farið að ræða um Icesave í þessu samhengi. Skiptir engu máli hvernig hlutirnir eru gerðir? Það er það sem þjóðin vill vita. Ráðherra segir í viðtali núna fyrr í vikunni að þeir sem báru ábyrgð á þessari framkvæmd myndu ekki bera ábyrgð á næstu framkvæmd. Svo sagði hann í fjölmiðlum í gær að hæstv. fjármálaráðherra hafi þegar axlað ábyrgð á bankasöluklúðrinu með því að óska eftir umræddri skýrslu, og viðurkennir þannig að ábyrgðin liggi hjá honum.

Ég spyr hæstv. menningar og viðskiptaráðherra: Treystir hún hæstv. fjármálaráðherra eftir allt sem á undan er gengið til að bera ábyrgð á frekari sölu á Íslandsbanka?