153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu Íslandsbanka.

[15:08]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það sem um er að ræða eru stjórnmál, fyrir hvað við stöndum í stjórnmálum. Erum við tilbúin til þess að verja íslenska hagsmuni í raun og veru sama hvað á gengur? Fyrir það stendur t.d. minn flokkur og hefur gert allan tímann, staðið í lappirnar gegn því að verið sé að veikja landið okkar. Í aðdraganda hrunsins og í hruninu voru fjölmargir stjórnmálaflokkar sem voru ekki tilbúnir til að gera það. Þeir voru ekki tilbúnir til að segja: Þetta Icesave, þetta er ekki reikningur þjóðarinnar. Þetta skiptir máli vegna þess að þetta segir fyrir hvað við stöndum. Og svarið er já, ég treysti hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til að fara í frekari sölu. Ég vil ítreka þó eitt, við eigum eftir að fá endanlega niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins til að fá heildarmynd af því hvernig salan tókst.