153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

söluferli Íslandsbanka.

[15:25]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þegar við erum að selja ríkiseigur og sérstaklega ríkisbanka er afskaplega brýnt að þar sé vandað til alls. Jafnvel þó að ég hafi sagt á sínum tíma að ég væri mjög skeptísk á þessa nálgun þá var það engu að síður þannig að sérfræðingar, ekki bara sérfræðingar Bankasýslunnar, kynntu þessa tilboðsleið og kynntu hana þannig að þessi leið væri notuð í Evrópu og hefði gengið mjög vel. Ég ætla bara að segja það að ég hefði alveg getað haft rangt fyrir mér, það er bara þannig. Það sem kemur hins vegar í ljós er að allt sem tengist bankasölu er í ljósi sögunnar viðkvæmt og það á að vera viðkvæmt af því þetta eru eigur almennings. Svo er það sem við gerum í kjölfarið. Ég verð að segja að ég tel að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra — það er hann sem óskar eftir því að allt sé skoðað og svo kemur þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar. Ég tel að hún sé mjög góð, jafnvel þó að Bankasýslan telji að svo sé ekki. Varðandi spurningu hv. þingmanns er það þannig að við vöndum okkur í þeim skrefum sem við erum að taka. Ég er hins vegar á því að við eigum að draga úr eignarhaldi ríkissjóðs, draga úr hlut okkar, í Íslandsbanka en við þurfum að vanda okkur.