Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Högni Elfar Gylfason (M):

Hæstv. forseti. Einn fylgifiskur hraðra framfara í tækni hér á landi er sá að jaðarsvæðin vilja stundum gleymast. Skortur á farsímasambandi víða til sveita er hluti þess. Þannig hafa sumir landsmenn ekki kost á notkun rafrænna skilríkja til að nota þjónustu fyrirtækja og stofnana. Þá skapast reglulega hætta í vondum vetrarveðrum þegar fólk er sambandslaust við umheiminn. Það þarf að klára farsímavæðingu alls landsins því ekki viljum við mismuna fólki eftir búsetu fremur en af öðrum ástæðum.

En að öðru alvarlegu máli. Í byrjun mars síðastliðins voru um 750 einstaklingar á biðlista eftir afeitrun hjá sjúkrahúsinu á Vogi. Líkur eru á að stór hluti þeirra sé endurkomufólk, því þeir sem koma í fyrsta sinn ganga fyrir. Það er þyngra en tárum taki að mörg hundruð manns séu í þessari viðkvæmu stöðu. Það sést ekki endilega utan frá hversu alvarleg veikindin eru en um er að ræða fólk sem er í raunverulegri lífshættu. Ég biðla til hæstv. heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, að gera allt sem hann getur til að lagfæra þetta hræðilega ástand svo brotnar fjölskyldur geti hafið bataferil sinn.

Að síðustu vil ég þakka þingheimi fyrir góðar móttökur þessa viku sem ég hef setið á þingi. Megi þingi og þjóð farnast vel í framtíðinni.