Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Eydís Ásbjörnsdóttir (Sf):

Herra forseti. Samkvæmt lögum er það á ábyrgð ríkisins að veita öllum heilbrigðisþjónustu. Staðreyndin er hins vegar sú að því lengra sem farið er frá höfuðborgarsvæðinu þeim mun minni verður þjónustan. Þetta þekkjum við landsbyggðarfólkið vel. Á síðustu árum hafa sveitarfélög eflt nærþjónustu sína með aukinni fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum í skólum og félagsþjónustu án þess að fjármagn og lögbundin skylda sé til staðar um þátttöku í veitingu heilbrigðisþjónustu. Ríkið hefur eflt geðheilbrigðisþjónustu sína í gegnum heilsugæsluna en það þarf svo miklu meira til. Við vitum að lýðheilsuvísar og rannsóknir benda til alvarlegrar stöðu þessara mála hér á landi. Vísarnir benda til þess að þunglyndislyf séu mikið notuð til að vinna á einkennum en ekki er verið að fjárfesta í úrræðum til að ráðast að rótum vandans. Til dæmis er staðan á Austur- og Norðurlandi að miklu leyti sú sama í dag og hún var árið 2016, þar mesta þunglyndislyfjanotkun á landsvísu. Alþingi Íslendinga hefur samþykkt geðheilbrigðisstefnu, aðgerða- og kostnaðaráætlun liggur fyrir, en árangur í þessum málaflokki næst ekki nema fjárfest sé í honum. Tryggt fjármagn og úrræði verða að vera til staðar þar sem fólk býr.

Herra forseti. Við viljum ekki sem þjóð búa í landi þar sem fólki líður ekki vel. Ein birtingarmynd vanlíðunar sést í fjölmiðlaumfjöllun af hræðilegum hlutum, svo sem hatursorðræðu gagnvart ýmsum hópum í samfélaginu, vanlíðan og ofbeldi meðal barna, kynferðisbrotum og heimilisofbeldi, sjálfsvígshugsunum og sjálfsvígum, svo eitthvað sé nefnt. Höfum í huga að mörgum líður illa án þess að það tengist ofbeldi. Ég held að við viljum öll gera betur. Hættum að tala um það. Gerum við það.