Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Forherðing og afvegaleiðing af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er það sem stendur upp úr nú í lok þingvikunnar. Tvö dæmi: Fyrsta dæmið er Íslandsbankasala þar sem tugir athugasemda eru settar fram við söluna af hálfu Ríkisendurskoðunar. En það er enginn sem ber ábyrgð, allra síst ríkisstjórnin, heldur er bent á einhverja aðra. Ekki benda á mig, sagði varðstjórinn. Þegar spurningarnar eru orðnar óþægilegar frá stjórnarandstöðu eða blaðafólki þá er svarað með útúrsnúningum. Og já, það er dregið fram að þetta snúist allt um Icesave eða að vonda Evrópusambandinu er kennt um. Forherðing og afvegaleiðing, það er eins og Steve Bannon hafi verið ráðinn ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Seinna dæmið tengist Íbúðalánasjóði þar sem fjármálaráðherra og ríkisstjórnin ætla ekki að standa við skuldbindingar sínar heldur frekar láta eldri borgara nútímans og framtíðarinnar sitja uppi með baggann. Þeir ætla heldur ekki að virða eignarréttinn í því risamáli. Stjórnarandstöðunni er neitað um þá einföldu ósk að fá nýtt lögfræðiálit, sem þingið fær til sín, sem byggir ekki á lögfræðiáliti fjármálaráðherra. Stjórnarandstöðunni er neitað um þá beiðni. Minni hluti í stjórnum hlutafélaga er betur staddur og með meiri réttindi en stjórnarandstaðan hér á þingi, er betur varinn í hlutafélögum en hér. Það segir svolítið mikla sögu.

Í þessu risamáli eru fjármálaráðherra og ríkisstjórnin ekki að gera neitt annað en að rétta bókhaldið af með því að fara í vasa almennings. Við skulum hafa það á hreinu. Eftir vinnuvikuna stendur einmitt þetta, þegar maður hlustar á allt ríkisstjórnarfólkið, líka hér í dag, með alls konar afvegaleiðingar og forherðingu, nákvæmlega þetta: Það á ekki að hafa kjark til þess að horfast í augu við raunveruleikann — forherðing, afvegaleiðing, útúrsnúningar af hálfu ríkisstjórnarflokkanna alla heilu vikuna.