Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S):

Virðulegi forseti. Nú lifum við þá tíma að ýmsar ógnir steðja að hinum frjálsu þjóðum. Þetta hefur leitt af sér hækkandi matvælaverð og aukinn flutningskostnað og hráefniskostnaður hefur hækkað, eldsneyti hefur hækkað og áburður sömuleiðis. Þetta veldur óneitanlega ákveðnu álagi og auðsjáanlega á íslenskan landbúnað. Í því ástandi sem ég lýsti hér áðan er eðlilegt og nauðsynlegt að ríki líti inn á við og stundi það sem kalla mætti raunsæispólitík og leggi áherslur þar sem nauðsynlegt er að bregðast við. Þetta á ekki síst við um það sem við getum kallað grunnstoð íslensks samfélags sem er íslenskur landbúnaður. Það hlýtur að vera áherslumál þingsins á næstu misserum að efla íslenskan landbúnað og tryggja fæðuöryggi í landinu. Í því samhengi held ég að það sé rétt að hlustað verði á raddir bænda og það verði gert sérstaklega við endurskoðun sauðfjársamningsins sem fram undan er. Það verður að tryggja sátt um greiðslumarkið og renna stoðum undir áframhaldandi sókn íslensks landbúnaðar landi og þjóð til heilla.

Það hlýtur að vera áherslumál fyrir okkur sem frjálsa og fullvalda þjóð að geta staðið undir matvælaframleiðslu. Við höfum sérstöðu og við stöndum að mörgu leyti vel í atriðum er snúa að dýravelferð, hreinleika og heilbrigði. Þetta, svo að ég segi það, ættu að vera forgangsmál á Alþingi og ég hvet hv. þingmenn til að sinna þessu vel.