Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Það er gott að búa í Ölfusi, en það hefur verið dálítið erfitt, held ég, síðustu mánuði þegar fréttir birtast af einhverjum hálfbrjáluðum verkefnum sitthvorum megin á Suðurlandinu þar sem annars vegar á að flytja stóran bút úr Mýrdalssandi í 100 ár til uppskipunar í Þorlákshöfn og hins vegar á að taka heilt fjall ofan af Þrengslum og flytja til Þorlákshafnar til uppskipunar. Íbúum líst ekki vel á þetta, það var íbúafundur nú fyrr í vikunni. Fyrir utan áhyggjur fólks af umhverfisáhrifum þar sem efnistakan er þá er fólk eðlilega með áhyggjur af því hvernig áhrifin eru á hafnarbakkanum í Þorlákshöfn vegna þess að fyrirtæki ætlar að taka litla Sandfell ofan af Þrengslunum og koma því í sement úti í löndum, ætlar að taka allar iðnaðarlóðir á hafnarbakkanum, það ætlar að skerma það af sem við getum kallað miðbæ Þorlákshafnar frá austurhluta Suðurlands, 55.000 m² lóð, eða í rauninni, ef ég man rétt, 12 lóðir sem á að steypa saman eiga að fara undir verksmiðjuna í þetta eina verkefni, lóðir sem gætu nýst til fjölbreyttari atvinnuuppbyggingar til að gera Þorlákshöfn að miklu skemmtilegir stað heldur en ein einasta uppskipunarverksmiðja gæti gert.

Þetta leiðir líka hugann að áhyggjum sem fólk hefur alltaf af aðgerðum sem hafa neikvæð áhrif á umhverfið vegna þess að lög um mat á umhverfisáhrifum eru enn löskuð á þann hátt að neikvæð niðurstaða í umhverfismati hefur ekki áhrif, hefur ekki föst áhrif vegna þess að leyfisveitandi, í þessu tilviki sveitarfélagið, getur hunsað þau, getur veitt leyfi engu að síður. Í tilfelli Ölfuss þá er kannski ástæða til að hafa áhyggjur því að bæjarstjórinn er nýbúinn að lýsa því yfir t.d. að hann vilji friðlýsa Reykjadal eins þröngt og mögulega er hægt til að sé hægt að skoða möguleika á orkuvinnslu í þeirri náttúruperlu. Þá mótmælti Hveragerði af því að góðir grannar reisa ekki háhitavirkjanir í bakgarðinum hjá nágrönnum sínum.