Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

sjúklingatrygging.

211. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa athugasemd. Ég skil hv. þingmann þannig að hann taki undir mín orð, að það sé mikilvægt að þeir sem láta bólusetja sig að hvatningu heilbrigðisyfirvalda séu þá tryggðir gagnvart sjaldgæfum og alvarlegum aukaverkunum. Það á ekki bara við um bólusetningu við apabólu heldur allar bólusetningar sem heilbrigðisyfirvöld hvetja til. Það er einmitt það sem við í minni hlutanum erum að segja: Við skulum ekki samþykkja bráðabirgðaákvæði um apabólu sem kveður sérstaklega á um sjaldgæfar og alvarlegar aukaverkanir heldur skýrum lögin þannig að það renni stoðum undir núverandi túlkun Sjúkratrygginga sem eru einmitt á þennan veg; fyrir allar bólusetningar sem heilbrigðisyfirvöld hvetja til.

Þetta frumvarp er ólíkt frumvarpinu sem við samþykktum um bólusetningu vegna Covid. Þar var ekki tekið fram að um væri að ræða alvarlegar og sjaldgæfar aukaverkanir. Núna er það gert og það er nákvæmlega í samræmi við túlkun Sjúkratrygginga á núverandi lögum. Ef við erum að samþykkja bráðabirgðaákvæði sem tekur þetta til bara fyrir bólusetningu vegna apabólu þá erum við búin að taka stoðirnar undan núverandi túlkun Sjúkratrygginga. Þess vegna segjum við: Skýrum frekar lögin og treystum þá þessa túlkun sem hingað til hefur verið á lögunum og farið hefur verið eftir hingað til en verum ekki að samþykkja bráðabirgðaákvæði sem getur tekið þær stoðir undan túlkun sjúkratrygginga.