Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[12:42]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum menningarminjar. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tveimur ákvæðum laga um menningarminjar, nr. 80/2012, sem snúa að aldursfriðun húsa og annarra mannvirkja. Annars vegar er um að ræða breytingu á 29. gr. laganna, en í henni er kveðið á um að öll hús og mannvirki sem eru 100 ára og eldri séu friðuð og bætt við heimild Minjastofnunar Íslands til að skilyrða leyfi vegna framkvæmdar á friðuðu húsi eða leggja til friðlýsingu þess. Hins vegar er um að ræða breytingu á 30. gr. laganna sem fjallar um verndun annarra húsa og mannvirkja. Þar er í dag miðað við ártalið 1925 en lagt er til að það ártal færist nær í tíma og verði miðað við 1930.

Breytingarnar sem frumvarpið felur í sér þýða að hin svokallaða 100 ára regla mun ekki gilda um hús og mannvirki. Í stað þess verður miðað við fast ártal, þ.e. 1923, og sjálfkrafa friðun fjölda húsa og mannvirkja á grundvelli aldurs þannig stöðvuð. Í dag er það þannig að friðun allra fornminja, húsa og annarra mannvirkja miðast við 100 ára aldur, þó með þeirri undantekningu að bátar og skip frá því fyrir 1950 teljast til fornminja. Breytingin úr föstu ártali vegna húsafriðunar í hlaupandi ártal sem miðaði við 100 ára aldur var m.a. gerð til að samræma aldursviðmið milli húsa, mannvirkja og fornminja.

Í lögunum er að finna þrjú stig varðveislu fornleifa, húsa og mannvirkja. Í fyrsta lagi er kveðið á um friðlýsingu. Í öðru lagi er um að ræða áðurnefnda aldursfriðun sem miðar við 100 ár og í þriðja lagi er í lögunum að finna ákvæði um verndun annarra húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar en voru byggð 1925 eða fyrr, svokallaða umsagnarskyldu.

Þegar lög nr. 80/2012 tóku gildi miðaðist aldursfriðunarákvæðið við árið 1912 samkvæmt áðurnefndri 100 ára reglu. Með hverju árinu sem líður bætast því við nýjar fornminjar og fjölgun verður á aldursfriðuðum mannvirkjum, eðli málsins samkvæmt, og af því leiðir að stutt er í aldursfriðun mikils fjölda steinsteyptra húsa, annarra mannvirkja og ýmissa innviða í þéttbýli og sveit.. Þá liggur fyrir að litlu munar orðið á viðmiðunarári aldursfriðunar annars vegar, nú 1922, og viðmiðunarári umsagnarskyldu hins vegar, nú 1925, en við gildistöku laganna munaði 13 árum.

Fágæti eykur varðveislugildi minja en hið gagnstæða dregur úr því. Ljóst er að hvorki er hægt né æskilegt að vernda allar menningarminjar og hús. Þá er þörf á faglegum rökum fyrir vernd. Þá liggur fyrir að fjöldi aldursfriðaðra fornminja og mannvirkja á eftir að stóraukast ár hvert með þeim afleiðingum að álag á stjórnsýslu minjamála mun aukast töluvert. Slíkt gæti dregið úr getu til að fjalla á vandaðan hátt um öll mál og til lengri tíma haft neikvæð áhrif á hús, önnur mannvirki og fornminjar með hátt varðveislugildi sem sannarlega þarf að vernda. Að óbreyttum lögum munu því líkur aukast á að hús og önnur mannvirki með lágt varðveislugildi njóti aldursfriðunar án þess að fagleg rök um vernd liggi að baki.

Með frumvarpinu er stefnt að því að tryggja aldursfriðun þeirra húsa og mannvirkja sem raunverulega er þörf á að njóti verndar og að koma í veg fyrir að hús og önnur mannvirki sem ekki er þörf á að vernda öðlist slíka vernd eingöngu sökum aldurs.

Ég tel mikilvægt að benda á að í frumvarpinu er eingöngu verið að stöðva sjálfkrafa aldursfriðun húsa og annarra mannvirkja á grunni 100 ára reglunnar, en hún mun áfram gilda um fornminjar. Ástæða þess að árið 1923 er valið sem viðmiðunarár fyrir hús og mannvirki er sú að ef miðað verður við annað ártal, t.d. 1918, mun það hafa í för með sér að friðun verði aflétt á alls 925 húsum og öðrum mannvirkjum án faglegrar umfjöllunar um hvort ástæða sé til að aflétta þeirri friðun. Það er að mínu mati grundvallaratriði að sú umfjöllun eigi sér stað áður en friðun verði aflétt með lagasetningu.

Það liggur fyrir að ráðast þarf í heildarendurskoðun laga um menningarminjar og það verður gert. Í þeirri vinnu má gera ráð fyrir ítarlegri umfjöllun um hvaða ártal eigi að miða við og eins hvort ekki sé eðlilegt að friðun fornminja eigi ekki líka að miðast við fast ártal en ekki hlaupandi ártal eins og er í dag.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.