Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[12:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um menningarminjar. Ég held að þarna sé verið að leggja til skynsamlega breytingu en velti samt sem áður fyrir mér, út frá þeim takmörkuðu upplýsingum sem koma fram í greinargerðinni, hvort það væri ekki heppilegra að miða aldursfriðunina við ártal örlítið fyrr en 1923. Miðað við upplýsingarnar í töflu eitt í greinargerðinni eru hús byggð á árunum 1920–1923, þúsund talsins. Af umsögnum sem komið er inn á í greinargerðinni hefur verið bent á að hugsanlega væri jafnvel skynsamlegra að miða við eitthvert ár á milli 1915 og 1918 og af þessari töflu þá myndi ég vilja stoppa við árið 1918 eða 1919. Ég vil spyrja ráðherra að því hvort það væri ekki eðlilegt að nefndin legðist dálítið yfir þetta akkúrat.

Hins vegar langar mig aðeins að koma inn á eldri hús í dreifbýlinu. Ég fletti aðeins upp á húsakönnunum hjá Minjastofnun og þær eru mjög fáar á húsum í dreifbýli. Ég hef veitt því athygli að það eru oft svolítið svipuð hús í sömu sveitinni eða sama hluta landsins. Ef við horfum t.d. á Fljótsdalshéraðið eru ákveðnar sveitir á miðju í héraðinu þar sem eru mjög gömul vegleg steinhús frá því fyrir og um 1920. Í öðrum sveitum eru hús þar sem eru sambyggð fjós og svona lítil valmaþakshús. Þannig að það þarf kannski ekki að vernda allt en hugsanlega einhverja hluta.