Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[13:49]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Málið sem við erum að horfa á hérna snýr að tiltölulega afmörkuðum hópi. Þetta er sérstaklega hópur ungs fólks sem í flestum tilvikum á við geðræn vandamál að stríða og það er ekki fyrirséð eftir þetta þriggja ára tímabil endurhæfingar hvort það komist út á vinnumarkaðinn., þ.e. það er talið að með því að halda því áfram í endurhæfingu séu meiri möguleikar á að það skili sér út á vinnumarkaðinn, sem er jákvætt. Við erum að horfa til þess að það er ekkert sérstaklega margt fólk sem er að nýta sér alla 36 mánuðina eins og kerfið er í dag. Þetta eru kannski rúmlega 100 manns og 80% af þeim enda á örorkulífeyrisgreiðslum. Það þýðir að það er talið að innan þess hóps, og eins og ég sagði hér áðan, sérstaklega fólk sem á við geðræn vandamál að stríða, sem eigi möguleika á því að geta haldist í endurhæfingu þannig að það komist út á vinnumarkaðinn í framhaldinu.

Hitt atriðið sem hv. þingmaður nefnir og snýr að þeim áskorunum sem eru í kerfinu almennt séð þegar kemur að endurhæfingunni — þetta frumvarp eitt og sér mun ekki geta tekið á öllum þeim vanda heldur er það fyrst og fremst þetta sem ég lýsti hér á undan. Til þess er nú heildarendurskoðunin líka sem við stöndum í þar sem við viljum taka upp fleiri greiðsluflokka, þ.e. að það sé mismunandi staða hjá fólki eftir því hvort það þarf að vera inni í heilbrigðiskerfinu eða inn í starfsendurhæfingu eða hvort það þarf hreinlega að vera á einhvers konar virknigreiðlsum. Það er frumvarp sem ég hyggst koma með eftir áramót.