Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[14:51]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 110/2016, um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist. Meginmarkmið frumvarpsins lýtur að því að framlengja gildistíma laga nr. 110/2016 til fimm ára og stuðla þannig að áframhaldandi uppgangi íslensks tónlistariðnaðar. Er þetta í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um nauðsyn þess að tryggja frekari stuðning við íslenskt tónlistarfólk.

Þá leggur frumvarpið til nokkrar breytingar á gildandi lögum í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra. Lög nr. 110/2016, um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, tóku gildi hinn 1. janúar 2017 og var þeim upphaflega markaður fimm ára gildistími til 31. desember 2022. Markmið stofnlaganna var að setja á fót hvatakerfi til að efla tónlistariðnað á Íslandi með því að veita útgefendum hljóðrita, tímabundinn rétt til endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun hér á landi ásamt því að laða erlent tónlistarfólk til að hljóðrita tónlist. Var lögunum bæði ætlað að sporna gegn þeim samdrætti sem hefði orðið á sölu áþreifanlegra hljóðfanga og þeim atgervisflótta sem hefði orðið á hæfileikafólki úr tónlistariðnaðinum. Var þetta í samræmi við stefnu þáverandi ríkisstjórnar um að tónlist skildi njóta sömu hvetjandi ívilnana og kvikmyndagerð en sambærilegt hvatakerfi hefur verið til staðar innan kvikmyndaiðnaðarins frá því að lög nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, tóku gildi árið 1999.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 kemur fram sú áhersla ríkisstjórnarinnar að tryggja frekari uppbyggingu tónlistariðnaðarins og áframhaldandi stuðning við íslenskt tónlistarfólk. Þá er lögð áhersla á frekari nýtingu verkefnisins Record in Iceland, sem miðar að því að kynna Ísland sem vænlegan stað til hljóðritunar á tónlist með hliðsjón af möguleikunum á 25% endurgreiðslu hljóðritunarkostnaðar sem fellur til á Íslandi.

Í drögum að tónlistarstefnu Íslands til ársins 2030 kemur fram að nauðsynlegt sé að kynna endurgreiðslukerfið enn frekar og skoða frekari leiðir til að styrkja samkeppnisstöðu Íslands.

Í þessu samhengi er vert að nefna að Ísland er fyrsta landið sem býður upp á endurgreiðslur vegna hljóðritunarkostnaðar. Slíkar endurgreiðslur þekkjast víða þekkist víða í öðrum greinum á borð við kvikmyndaframleiðslu og geta verið árangursrík tól stjórnvalda til þess að laða til landsins verðmætar erlendar fjárfestingar í innlendri menningu. Slík hvatakerfi geta einnig gegnt lykilhlutverki í ákvörðun um staðsetningu verkefnis þegar og ef önnur lönd taka upp endurgreiðslukerfi vegna hljóðritunarkostnaðar á tónlist. Því er mikilvægt að Ísland verði eftir sem áður álitlegur kostur fyrir erlent tónlistarfólk til að hljóðrita tónlist. Með því er áframhaldandi samkeppnishæfni Íslands í tónlistargeiranum tryggð.

Endurgreiðslukerfi laga nr. 110/2016 hefur hingað til haft hvetjandi áhrif á tónlistarútgáfu á Íslandi með tilheyrandi jákvæðum efnahags- og menningarlegum áhrifum. Töluleg gögn benda til þess að endurgreiðslukerfið sé farið að taka við sér og skila tilætluðum árangri. Frumvarpið miðar að því að framlengja endurgreiðslukerfi laga nr. 110/2016 og þannig festa kerfið frekar í sessi.

Þá eru lagðar til breytingar sem eru til þess fallnar að gera kerfið skilvirkara og hámarka afköst þess. Lýtur frumvarpið að eftirfarandi þremur þáttum: Í fyrsta lagi er með frumvarpinu lagt til að gildistími laganna verði framlengdur til fimm ára. Hefur endurgreiðslukerfi laganna þegar skilað miklum árangri og benda töluleg gögn til þess að kerfið hafi orðið til þess að tónlistarútgáfa á Íslandi hafi aukist og er það mikið fagnaðarefni. Er þetta vísbending um gæði endurgreiðslukerfisins og alþjóðlega samkeppnishæfni þess. Þá leiðir endurgreiðslukerfið af sér auknar hagupplýsingar varðandi tónlistarútgáfu hér á landi, líkt og kallað var eftir í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027, en þar kom fram að mikill skortur hafi verið hingað til á greinargóðum tölfræðilegum upplýsingum um menningarmál. Með framangreindum rökum er því lagt til að áfram verði veittar tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist hér á landi og að lögin gildi til ársloka 2027. Sé litið til endurgreiðslukerfis laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi má sjá að það getur tekið langan tíma fyrir slík ívilnandi stuðningskerfi að ná yfirlýstum markmiðum, en gildistími þeirra hefur verið framlengdur sem nemur 16 árum. Með sömu rökum og sú framlenging hefur grundvallast á verður að teljast eðlilegt að framlengja gildistíma laga nr. 110/2016, um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að starfsemi þjónustuaðila verði endurgreiðsluhæf. Samkvæmt núgildandi lögum eru það einungis útgefendur hljóðrita sem falla undir gildissvið laga nr. 110/2016 og eiga rétt á endurgreiðslum á grundvelli laganna. Hins vegar hefur starfsemi þjónustuaðila verið ófyrirséð afleiðing endurgreiðslukerfisins. Þjónustuaðilar eru þeir aðilar sem veita upptökuþjónustu við útgefendur hljóðrita. Sú starfsemi hefur náð afar góðum árangri í að laða stór erlend upptökuverkefni til landsins og fellur því vel að upphaflegu markmiði stofnlaganna. Er endurgreiðslukerfi laganna ein af meginforsendum fyrir velgengni þjónustuaðila og eru með frumvarpinu lagðar til breytingar sem opna á að þjónustuaðilar geti í afmörkuðum tilvikum sótt um endurgreiðslu í stað útgefanda hljóðrita. Er þetta nauðsynleg breyting til að tryggja að starfsemi þeirra geti talist endurgreiðsluhæf samkvæmt lögum.

Dæmi um innlenda þjónustuaðila sem sérhæfa sig í framleiðslu á tónlist fyrir hin ýmsu tónlistartengdu verkefni og hafa getið sér gott orð hjá erlendum útgefendum og unnið með stórum aðilum eins og til að mynda Netflix, Apple TV, Universal, BBC og fleirum, eru Menningarfélag Akureyrar í gegnum verkefnið SinfoniaNord og Reykjavík Recording Orchestra í Hörpu. Um er að ræða verðmætar fjárfestingar erlendra aðila, oft stórra erlendra aðila, í innlenda tónlistargeiranum sem tryggir að gífurlega mikilvæg þekking og reynsla helst í landinu. Þannig eykst tækniþekking með tilheyrandi tæknibúnaði ásamt því að spornað er gegn atgervisflótta hæfileikafólks úr íslenska tónlistariðnaðinum. Þetta hefur mjög jákvæð og styrkjandi áhrif á innlendan tónlistariðnað. Þar sem starfsemi þjónustuaðila fellur að mörgu leyti illa að þeim skilyrðum sem gildandi lög nr. 110/2016 setja fyrir endurgreiðslu hljóðritunarkostnaðar eru með frumvarpinu einnig lagðar til nauðsynlegar breytingar á þeim takmörkunum sem lögin setja í þessu samhengi.

Virðulegur forseti. Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði fyrir ráðherra að kveða nánar á um skilyrði fyrir tónlistarendurgreiðslureglugerð. Í framkvæmd hefur myndast nokkur óvissa um hvaða kostnaður teljist endurgreiðsluhæfur skv. 6. gr. laga nr. 110/2010. Með frumvarpinu er því lagt til að heimilt verði að skýra það með nánari hætti í reglugerð.

Virðulegur forseti. Tónlist er ekki einungis stór hluti af menningu landsins. Hún er einnig atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein þar sem hvert tónlistarverkefni getur skapað mörg afleidd störf. Til að hægt sé að viðhalda þessari uppbyggingu og tryggja tónlistarlífi Íslands frekari forsendur til hagvaxtar er mikilvægt að tryggja áframhaldandi endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist. Slíkt hvetur til frekari atvinnusköpunar, fjárfestingar í tónlistariðnaðinum, tækni og getuuppbyggingar, framþróunar og fagvæðingar og tengslamyndunar milli aðila.