153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:09]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra kærlega fyrir svarið og er henni sammála um það sem hér hefur verið nefnt. Það hefur í rauninni hamlað mjög framgangi hagkerfis tónlistarinnar hér á undanförnum árum að okkur hefur skort alvöruinnviði, alvörutónlistariðnað, sem er sambærilegur við það sem nágrannalöndin búa að og þess vegna hefur það jafnan átt sér stað þegar, við skulum segja, stofnanir á borð við STEF og samtök hljómplötuframleiðenda og annarra hafa vökvað grasrótina með eigin fé, þ.e. úr vösum tónlistarmannanna sjálfra og útgefendanna, og á síðari árum með atfylgi hins opinbera, þá hafa þeir sprotar jafnan verið hrifsaður úr íslenskri moldu og færðir til Stóra-Bretlands, Bandaríkjanna eða annarra þjóða til að ná blómgun og framgangi.

Hér ríkir skilningur á þessu og hann speglast í þessari löggjöf. Hann speglast í þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar og núverandi menningar- og viðskiptaráðherra að af hugverkunum erum við best þekkt og með því að beina kröftum okkar þangað og gera löggjöfina hagfelldari eins og hér er verið að gera þá munum við ná þeim markmiðum sem hér hefur verið lýst. Og þau lög sem gengu í gildi 1. janúar 2020 um að hugverk skuli vera jafngild öðrum eignarrétti þegar kemur að skattlagningu, þ.e. fjármagnstekjuskattur versus tekjuskattur, (Forseti hringir.) laða hingað fullt af verkefnum og líka fólk sem horfir til Íslands sem nákvæmlega þessarar miðstöðvar hugverka (Forseti hringir.) og sköpunar sem lýst var í ræðu ráðherra.