Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:14]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka falleg orð hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra og ítreka ánægju mína og stéttarinnar allrar fyrir þau skref sem eru stigin hér. Þetta er fyrir mig sérstaklega ánægjulegt líka, dæmi um að það er hlustað eftir röddunum sem varða viðkomandi sérsvið, tekið mið af þeim, átt samráð sem leiðir til þess besta sem við getum í rauninni óskað okkur. Ég er þeirrar skoðunar og er búinn að segja það óhikað undanfarin ár að við búum hér á Íslandi, þrátt fyrir smæð markaðarins, við sennilega eitt hagfelldasta og besta lagaumhverfi sem nokkur þjóð býr að. Þá er það sem felst í þessum lögum líka nú þegar að skila okkur því sem kallað er „networking“ á ensku, þ.e. tengslamyndunum inn á alla lykilmarkaði heimsins. Þó að við eigum eftir að ná í skottið á þeim sem stýra Spotify í Svíþjóð, eða þess vegna Google, YouTube, Facebook og því öllu, og láta þá standa skil á sínum viðskiptum hér með sæmd, sem er ekki tilfellið í dag, þá eru þau skilyrði sem hér hafa verið sköpuð á þann veg að við erum öfunduð af þeim um allan heim. Til hamingju.