Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:20]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Ég ætla að taka aðeins undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að efla tónlistariðnaðinn. Eitt af því sem stjórnvöld eru að gera núna er að við höfum verið að taka hverja listgrein fyrir sig og móta stefnu. Stefnumótunin er með svipuðum hætti og ég lýsti hér áðan í öðru andsvari, þ.e. við leitum til grasrótarinnar sem vinnur undirbúninginn og kemur með hugmyndafræðina og svo búum við til stefnu og aðgerðaáætlun. Við höfum klárað þetta fyrir kvikmyndaiðnaðinn, það er komin kvikmyndastefna þar, við erum á lokametrunum með stefnu fyrir tónlistina, við erum með myndlistina og hönnun og á teikniborðinu er að klára fyrir lok kjörtímabilsins sviðslistir og svo stefnu í bókmenntum. Bókmenntirnar fengu mikinn stuðning á síðasta kjörtímabili og við höldum áfram að styðja við þær. En það sem er svo áhugavert og gott varðandi skapandi greinar er að þær tengjast auðvitað allar. Við sjáum það sem er að gerast fyrir norðan varðandi kvikmyndatónlistina. Þarna koma saman kvikmyndir og tónlist. Og vegna þess hversu fært fólkið okkar er þá eru að skapast góðar útflutningstekjur, mikil fagþekking og ég tala nú ekki um frábært að það sé líka að gerast á landsbyggðinni, sem ég tel að sé mjög brýnt og mörg afar öflug hljóðver eru núna á landsbyggðinni og mjög ánægjulegt að sjá aukna veltu í tengslum við það vegna þeirrar staðsetningar.