Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:36]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Ég ætla að ramma inn mína lofgjörð í mjög stuttu máli vegna þess að það er alveg sanngjarnt að segja að hér hafi menn verið nokkuð einhuga frá sennilega árinu 2013. Ég átti mjög marga fundi með forsætisráðherrum þessa tímabils, allt frá 2013, og þar voru ráðherrar Framsóknarflokksins með líka. Það var fyrst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, síðan Sigurður Ingi Jóhannsson. Svo ætla ég ekki að vanmeta framlag aðstoðarmanna ráðherranna sem liðkuðu iðulega til fyrir. Í tíð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur voru þar bæði Ólafur Teitur Guðnason og Hildur Sverrisdóttir. Manni ber ekki að vanmeta aðstoðarmenn ráðherra, „deputy ministers“ eins og þeir eru kallaðir á ensku, því að þeir búa til fundina, þeir skapa aðstæðurnar til að fundirnir verði uppbyggilegir og fylgt eftir með gerðum, því að mikið er hægt að tala og tala en orðum skulu fylgja gerðir. Það hefur í þessu tilfelli verið mjög þakklátt. Þó að það sé almennt ekki stundað að hæla meiri hluta úr röðum minni hluta þá stend ég hér og get ekki annað. Með leyfi andlegs leiðtoga Flokks fólksins míns (Gripið fram í.) þá leyfi ég mér að víkja af þeirri meginreglu til að segja bara eitt stórt takk fyrir það sem hér hefur áunnist og þakka öllum sem hafa komið og kannski ekki einu sinni verið hér nefndir. Takk.