Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

vísitala neysluverðs.

20. mál
[15:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Verðtryggingin er að vissu leyti algjört mein í íslenskum efnahag eins og hún leggur sig. Hún er ákveðin trygging á röngum stað, innbyggð leiðrétting, letiefnahagstæki. Þegar eitthvað fer á flakk í efnahagnum, hagsveifla og verðbólga o.s.frv., þá er hægt að nota hana til að seilast í öll lán landsmanna sem eru annaðhvort með breytilegum vöxtum eða verðtryggðum vöxtum, sem er alveg fáránlegt þegar allt kemur til alls. Hvað mig varðar, í þessu frumvarpi, er það frekar vandamálið heldur en liður húsnæðis í vísitölu neysluverðs. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða máli þetta skiptir þegar allt kemur til alls. Vandinn er kannski frekar verðtrygging til að byrja með, sem er fáránleg, og svo er verið að nota vísitölu neysluverðs, t.d. hækkun á olíu, til þess að hafa áhrif á það hvernig húsnæðislán hækkar. Þetta er fáránlegt. Ef það ætti að miða við einhverja vísitölu, ef það ætti á annað borð að vera verðtrygging, þá ætti að miða við vísitölu byggingar- eða húsnæðiskostnaðar í staðinn fyrir heildarvísitölu. Ég er alveg sammála þessu að því leyti, hvað húsnæði varðar, að það er ómögulegt að blanda þessu saman en við verðum að huga að því samt að upprunalega vandamálið og aðalvandamálið er verðtryggingin sem er letiefnahagstæki og við verðum að gera allt til að útrýma. Eftir það skiptir engu máli hvernig vísitölur eru reiknaðar.