Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

vísitala neysluverðs.

20. mál
[15:56]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Ég las það þannig að hann fattaði ekki alveg hvað þessi húsnæðisliður væri að gera þarna yfir höfuð, ef ég skil hv. þingmann rétt. (Gripið fram í.) Hann hefur í rauninni haft þau áhrif að það hefur munað allt að 4% á raunverulegri verðbólgu án húsnæðisliðar og þeirri þar sem húsnæðisliðurinn er reiknaður inn. Það hlýtur að muna um það, hv. þingmaður. Ég get glatt hann með öðru. Ég er algerlega sammála honum um verðtrygginguna, þetta er náttúrlega mein, þjóðarmein. Þess vegna get ég glatt hv. þingmann enn frekar með því að segja að Flokkur fólksins er náttúrlega að mæla fyrir í „hundraðasta“ sinn, við gefumst aldrei upp, við höldum bara áfram að moka í trektina, frumvarpi um einmitt bann við verðtryggingu neytendalána. Það er nú oft sagt við þá sem segjast ekki vilja verðtryggð lán, það sé bara svo slæmt: Heyrðu, þið eigið val, ef þið viljið ekki verðtryggt lán þá skulið þið bara taka blandað lán. En til gamans ætla ég að segja hv. þingmanni frá því, þó að hann hafi ekki einu sinni spurt mig um það, það er algerlega að mínu frumkvæði að segja honum þessa sögu, að ég var að skoða að gamni mínu íbúðalán sem bankarnir voru að bjóða. Ef ég valdi verðtryggt lán þá borgaði ég nákvæmlega akkúrat helmingi minna í mánaðarlegar afborganir heldur en ef ég valdi lán með breytilegum vöxtum. Fyrir þann sem er að ströggla og á rosalega erfitt með það yfir höfuð að borga af láninu sínu þá er hann alveg óneitanlega þvingaður inn í verðtrygginguna. Við höfum oft kallað þetta hinn eitraða kokteil og ég veit ekki hvað og hvað, en hv. þingmaður kemur bara með eitthvert tvist fyrir okkur í síðara andsvari.