Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

vísitala neysluverðs.

20. mál
[15:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er nefnilega svolítið „ef og hefði“ í þessu. Ef húsnæðisvísitalan hefði ekki verið inni í vísitölu neysluverðs þá hefðu lánin verið lægri. Nei, það er að sjálfsögðu ekki þannig. Þegar lánin voru veitt þá hefði einfaldlega verið reiknað með samtölu húsnæðisvísitölu og vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Þetta er bara ákvörðun bankanna eða þeirra sem lána til að passa upp á að þeir fái sitt. Þetta er efnahagstæki og þó að það hafi verið aðskilnaður þarna á milli þá taka þeir það bara inn í lánasamninginn: Við ætlum að taka báðar. Hagstofan og ríkisstjórnin er ekki með neina skipun til lánastofnana um að þær verði að nota vísitölu neysluverðs. Það er ekkert þannig. Þær nota hana af því að hún er hentug. Ef hún væri án húsnæðisliðar, sem hún er að vissu leyti líka, þá væri það einfaldlega notað saman. Ég sé ekki að þetta myndi laga neitt af því að lánastofnanir myndu bara segja: Ókei, við ætlum ekki að nota bara vísitölu neysluverðs heldur líka vísitölu húsnæðis, við ætlum að nota þetta tvennt, bless. Þannig að ég sé ekki að þetta lagi neitt. Í fullkomnum heimi þar sem stjórnvöld segðu kannski: Þið verðið að nota þessa vísitölu, þá mætum við þeim vanda að það er verðtrygging yfir höfuð. Það er vandinn, ekki þetta, fyrirgefið.