Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

vísitala neysluverðs.

20. mál
[16:01]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um vísitölu neysluverðs, með síðari breytingum (vísitala neysluverðs án húsnæðis).

Verðbólgan mælist langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og stærsti einstaki orsakavaldurinn er sífellt hækkandi húsnæðisverð. Þetta veldur keðjuverkandi áhrifum sem leiða til þess að greiðslubyrði heimilanna þyngist og lánin hækka til muna. Síðast þegar mælt var fyrir þessu sama máli mældist verðbólgan 5,7% en hefði verið 3,7% án húsnæðisliðarins. Þessar tölur hafa, eins og öllum er kunnugt, hækkað mikið og mælist verðbólgan nú hvorki meira né minna en 9,4% en myndi vera 7,3% ef húsnæðisliðurinn væri tekinn út.

Það væri áhugavert að reikna út hvað húsnæðisliðurinn í vísitölunni hefur kostað íslensk heimili og fyrirtæki, en þar er um háar upphæðir að ræða. Til hvers? Hverjum er það til gagns að íslensk heimili séu að borga hærra vöruverð og hærri vexti til að ná niður verðbólgu sem þarf ekki að vera 9,4%? 7,3% er alveg nógu mikið fyrir heimili og fyrirtæki að takast á við, þótt ekki sé verið að gera illt verra með því að hafa lið í vísitölunni sem er ekki einu sinni neysluvara. Samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók er neysluvara skilgreind sem „vara sem framleidd er til neyslu.“ Ef ég slægi upp ensku skilgreiningunni á „consumer products“, með leyfi forseta, kemur upp í lauslegri þýðingu „vara sem keypt er af einstaklingum eða heimilum til neyslu.“ Vara til neyslu. Það er erfitt að halda því fram að húsnæði sé neysluvara. Húsnæði er nauðsyn sem fólk hefur ekki val um að kaupa því að öll þurfum við þak yfir höfuðið. Hins vegar er neysla það sem snýr að afnotum af húsnæðinu, eins og t.d. rafmagn og hiti, en ekki húsnæðið sjálft. Leiga og afborganir lána sem greidd eru fyrir afnot af húsnæði í hverjum mánuði gætu þannig einnig átt heima í vísitölunni því þar er um notkun að ræða og þar með neyslu húsnæðis, en ekki vísitölu húsnæðisverðs. Það eru nákvæmlega engin rök fyrir því að skilgreina húsnæðisverð sem neyslu, enda er allt annað í vísitölu neysluverðs smærri hlutir sem saman mynda stóra upphæð.

Í þrautum eru stundum lagðar fram myndir þar sem ein passar ekki, t.d. myndir af osti, mjólk, húsi og rjóma, og spurt hvað eigi ekki heima þar. Svarið er augljóst: Húsið á ekki heima þar. Ef sams konar mynd væri sett upp með neysluvísitölunni blasir við að húsnæðisliðurinn passar engan veginn inn í hana. Flokkur fólksins hefur lengi barist fyrir því að húsnæðisliðurinn verði tekinn úr vísitölunni og það er ánægjulegt að sjá að þessi skoðun er að öðlast meira fylgi. Fyrr á þessu ári tók formaður Framsóknarflokksins undir að hann væri hlynntur slíkri breytingu og þar sem hann er formaður flokks sem er í ríkisstjórn er merkilegt að enn hafi ekkert gerst í þessu.

Það vekur upp spurningar um hvar aðrir formenn ríkisstjórnarflokkanna standa hvað þetta varðar. Hvað segir t.d. forsætisráðherra sjálfur um húsnæðisliðinn í vísitölunni? Ef hún er fylgjandi því að bæta stöðu heimila landsins er staðan væntanlega 2–1 í ríkisstjórninni og því ætti eftirleikurinn að vera auðveldur. Er staðan kannski bara 2–1, Sjálfstæðisflokkurinn vann? Formaður Framsóknarflokksins flaskaði samt á því að skella skuldinni á Hagstofu Íslands því að það er einfaldlega rangt að Hagstofan stjórni þessu. Þvert á móti er það í höndum löggjafans, okkar á Alþingi, að ákveða hvort húsnæðisliðurinn sé í vísitölunni eða ekki. Nú er komið frumvarp til að Alþingi geti staðið með heimilum landsins og kippt þessum lið úr vísitölunni.

Svo því sé haldið til haga þá mun þessi breyting ekki kosta Hagstofu Íslands meiri vinnu því að hún reiknar nú þegar vísitölu neysluverðs bæði með og án húsnæðisliðarins og hefur lengi gert. Það skýtur í raun enn frekari stoðum undir að húsnæðisliðurinn eigi alls ekki heima í vísitölunni sem neysluvara, enda er húsnæði það alls ekki þó að notkun þess kunni hugsanlega að vera það. Þessi breyting myndi því ekki auka kostnað eða vinnu Hagstofunnar. Alþingi þarf einfaldlega að vinna fyrir neytendur, heimilin í landinu, og taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni.

Við sem viljum taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni erum krafin um rök en í raun ætti það að vera öfugt. Það ætti að þurfa að færa mjög sterk rök fyrir því að hafa hann í vísitölunni. Förum aðeins yfir þetta. Í fyrsta lagi mælist verðbólga nú langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og þar er stærsti einstaki orsakavaldurinn sífellt hækkandi húsnæðisverð. Nú er verðbólgan 9,4% en án húsnæðisliðarins væri hún 7,3%. Heimilin munar um 2 prósentustig. Þetta veldur keðjuverkandi áhrifum sem leiða til þess að greiðslubyrði heimilanna þyngist og lánin hækka til muna.

Í öðru lagi stafar hátt húsnæðisverð fyrst og fremst af skorti á húsnæði. Eftirspurn er meiri en framboð. Skortur á framboði húsnæðis er ekki fólkinu í landinu að kenna. Þar þurfa stjórnvöld, bæði sveitarstjórnir og ríkisstjórnin, að líta í eigin barm. Hækkunum sem skortur á húsnæði veldur á alls ekki að velta yfir á heimili landsins sem bera enga sök á þessu ástandi. Það að álögur hækki á almenning og heimili vegna klúðurs sem stjórnvöld bera ábyrgð á, hvort sem um er að ræða sveitarstjórnir eða ríkisstjórnina, nær ekki nokkurri átt og er hreinlega ekki í boði.

Ég hef reyndar heyrt þau rök að ekki sé rétt að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni eins og sakir standa því að húsnæðisverð muni fara lækkandi á næstu mánuðum og hafi þá áhrif til lækkunar vísitölunnar og þar með verðbólgunnar. Ég er kannski mjög takmörkuð því að ég skil ekki með nokkru móti þessi rök og myndi vilja fara aðeins yfir hvers vegna. Í u.þ.b. ár hefur alltaf munað um 2% á vísitölunni með eða án húsnæðisliðar. Svo það sé tekið fram hefur munurinn oft verið meiri í gegnum árin, jafnvel yfir 3%. Miðað við 2% er t.d. ágætt að vita að 2% vextir á 40 millj. kr. láni kostar heimilin um 67.000 á mánuði eða 800.000 kr. á ári. Einungis á einu ári er þetta heimili með 40 millj. kr. lán þegar búið að borga aukalega heilar 800.000 kr. eða 67.000 á hverjum mánuði fyrir húsnæðisliðinn í vísitölunni. Gefum okkur nú að húsnæðisverð lækki og verðbólga fari niður um 0,5%. Ef vextir myndu fylgja í sama hlutfalli myndi afborgun lánsins lækka um 16.000 á mánuði eða 200.000 á ári. Í stað þess að mjatla vísitöluna niður um nokkur prósentubrot í einu, er ekki betra að skera þessi 2% af strax frekar en að mjatla niður verðbólguna á mörgum mánuðum? Á þann hátt mætti hlífa heimilunum við 800.000 kr. á ári og væri þetta til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki.

Ég ætti ekki að þurfa að rekja áhrif verðbólgu á verðtryggð lán en því miður eru margir sem átta sig ekki á hvernig þau virka í raun og hver snjóboltaáhrif þeirra eru. Verðbætur bætast ofan á höfuðstól lánanna í hverjum mánuði og hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána vegna tímabundinnar verðbólgu mun þess vegna hækka lánið og afborganir í veldisvexti út lánstímann, löngu eftir að við hin sem ekki erum með verðtryggð lán höfum gleymt þessu verðbólguári sem nú er. Þá munu þeir sem eru með verðtryggð lán enn þá vera að borga fyrir það. Þar munar um hvert prósentustig og það að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni myndi því skipta miklu máli til langs tíma fyrir fjölmargar fjölskyldur.

Það vita allir hvaða skelfilegu afleiðingar verðbólgan hafði á verðtryggð lán íslenskra fjölskyldna landsins í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Við skulum ekki láta þá sögu endurtaka sig. Þá hef ég ekki minnst á þau sem eru á leigumarkaði. Greiðsluseðill sem ég hef séð var upp á 280.000 í janúar 2020. Sama fólk í sömu íbúð greiddi 310.000 í leigu í janúar á þessu ári og miðað við þá verðbólgu sem orðin er hefur leiga þeirra væntanlega hækkað töluvert í viðbót á þessu ári. Hvað verður um fólk í þessari stöðu sem þegar stendur frammi fyrir því að eiga ekki fyrir leigunni? Þessir peningar eru einfaldlega ekki til hjá mörgum fjölskyldum.

Það að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni bjargar ekki öllu en væri viðspyrna gegn hörðustu áhrifum verðbólgunnar á heimilin. Þarna mættum við taka Hagstofu Evrópusambandsins okkur til fyrirmyndar frekar en í mörgu öðru. Í verðbólgumælingum hennar er húsnæðisliðurinn ekki í vísitölunni. Þar er heldur ekki nokkur verðtrygging á skuldbindingum heimila frekar en annars staðar í siðmenntuðum löndum. Ekki nóg með það heldur hefur fjármála- og efnahagsráðherra sjálfur lagt hina samræmdu evrópsku vísitölu, án húsnæðisverðs, til grundvallar málflutningi sínum og bent á að um þessar mundir sé verðbólgan hér á landi með lægsta móti meðal Evrópuríkja, til að mynda í kynningu á samantekt um stöðu efnahagsmála í slíðastliðnum ágústmánuði. Við hæstv. fjármálaráðherra vil ég segja að það verður ekki bæði sleppt og haldið. Þegar hann vill monta sig af því hversu lág verðbólga sé Íslandi í samanburði við önnur lönd er lágmark að hann miði við þá verðbólgu sem er raunveruleiki allra heimila á Íslandi en ekki eitthvað allt annað.

Ég hef lagt mesta áherslu á húsnæðiskostnað heimilanna í þessari ræðu, enda er hann stærsti einstaki útgjaldaliður þeirra. Áhrifin á vöruverð og raunverulegar neysluvörur munu líka verða mikil, enda horfa seljendur vöru og þjónustu gjarnan til opinberra verðbólgumælinga við ákvarðanir um verðlagningu. Því kemur mæling hærri verðbólgu en ella að heimilunum úr öllum áttum og þá sérstaklega þeim sem eru annaðhvort á leigumarkaði eða með verðtryggð lán.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja Framsóknarflokkinn til að standa fast á því að húsnæðisliðurinn verði tekinn úr vísitölunni, enda hafa bæði formaður hans og varaformaður talað á þeim nótum. Það skiptir miklu máli að Framsóknarflokkurinn sýni fram á afl sitt og áhrif innan ríkisstjórnarinnar, ekki síst eftir þann mikla kosningasigur sem hann vann með slagorðinu „fjárfestum í fólki“, og að hagur einstaklingsins sé hagur samfélagsins. Núna þarf svo sannarlega að taka hag einstaklinga fram yfir hag fjármagnsafla enda er það, eins og Framsóknarflokkurinn segir, hagur samfélagsins að einstaklingar þurfi ekki að berjast í bökkum og hafi það sem best. Þar skiptir þessi litla aðgerð að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni alveg gríðarlega miklu máli. Því hvet ég Framsóknarflokkinn, sem er í ríkisstjórn, til að nota tækifærið og sýna fram á að kosningafrasar hans séu ekki bara orðin tóm. Það að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni er ekki langtímalausn. Vandinn er í raun ekki vísitalan heldur það að hún hafi áhrif á lánin okkar, því annars myndi litlu sem engu máli skipta hvort húsnæðisliðurinn væri í vísitölunni eða ekki.