Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Innrás Rússa í Úkraínu hefur á svipstundu gjörbreytt stöðu heimsmála, samstarfi við bandalagsþjóðir okkar og þeim hættum og áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir. Þessar breytingar bætast við þá þróun sem hefur orðið undanfarna áratugi og voru grundvöllur fyrri tillagna okkar í Viðreisn sem miðuðu að því að styrkja stöðu landsins í breyttum heimi, m.a. með því að skoða það að stíga skrefið frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins til fullrar aðildar og við eigum að treysta þjóðinni til að stíga það skref.

Síðustu atburðir gera þá athugun enn brýnni en kalla líka á þéttara samstarf innan NATO og þessir atburðir kalla líka á aukið framlag Íslands til sameiginlegra verkefna bandalagsþjóðanna. Jafnframt er mikilvægt að gera varnarsamninginn við Bandaríkin skýrari að því er tekur til nýrrar öryggisáhættu, vegna netárása, samskipta Íslands við umheiminn og ferla komi til þess að taka ákvarðanir um að bregðast við aðsteðjandi hættu. Í þessu megum við ekki vera það einföld að útiloka einhverja þætti. Við erum búin að sjá það á síðustu misserum og síðustu vikum og mánuðum að það er ekkert sem er ómögulegt. Þótt það sé ógnvænlegt og fólgin í því gríðarleg áhætta fyrir allan heiminn þá felst í því líka ákveðin ógn og áhætta fyrir okkur Íslendinga. Aðstæður kalla því á kerfisbundið og skilvirkt samtal og samráð við yfirvöld Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja okkar, einkum nú um stöðuna á meginlandi Evrópu og hvað hún þýði fyrir okkur Íslendinga. Sömuleiðis er mikilvægt að huga að þeim fælingarmætti sem myndi felast í varanlegri viðveru varnarliðs á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þótt þetta kunni að vera viðkvæmt fyrir einhverja stjórnmálaflokka þá er þetta eitthvað sem við verðum að meta núna. Það skiptir auðvitað öllu máli fyrir land eins og Ísland, herlaust smáríki í Norður-Atlantshafi að við getum farið í þetta kerfisbundna og skilvirka samtal.

Flestar þjóðir hafa farið í markvissar aðgerðir til að bregðast við nýjum aðstæðum ásamt sameiginlegum verkefnum, sameiginlegum efnahagsþvingunum gagnvart Rússum og mikilvægri mannúðaraðstoð vegna hörmunga stríðsins. Við vorum að koma, nokkrir þingmenn, m.a. af upplýsingafundi varðandi þróunarsamvinnu þar sem ýmis alþjóðasamtök tóku höndum saman og áttu mjög góðan og öflugan fund með okkur þingmönnum, hvort sem þeir voru í fjárlaganefnd eða utanríkismálanefnd, en þar voru þau að leggja einmitt mikla áherslu á að það þarf að tryggja aðstæður í Úkraínu, tryggja þau réttindi, mannréttindi og fleira sem sem er ógnað þar, en um leið megum við ekki heldur gleyma þróunarsamvinnunni því að það er hætt við því að ef við einblínum eingöngu á Úkraínu — við verðum að gera það, við verðum að einblína á Úkraínu en við megum heldur ekki draga úr stuðningi okkar, þvert á móti, við aðra heimshluta því þar eru ógnir fyrir heiminn allan til skemmri og lengri tíma.

Mörg aðildarríki Evrópusambandsins hafa t.d. ákveðið að auka framlög til varnarmála í þeim tilgangi að axla meiri ábyrgð á hervörnum álfunnar, ekki síst Þjóðverjar sem hafa nú m.a. gjörbreytt sínum áherslum. Þegar horft er til Norðurlanda er líka athyglisvert að Danir hafa nýlega gefið út endurnýjaða stefnu í utanríkismálum þar sem lögð er áhersla á að dýpka samstarfið innan Evrópusambandsins, styrkja þátttökuna í NATO og treysta betur varnarsamstarfið við Bandaríkin. Þannig hafa Danir aukið framlög sín til varnarmála og sömuleiðis ákveðið að fella úr gildi fyrirvara landsins við varnarmálasamstarf Evrópusambandsins, þeir treystu þjóðinni til að taka þá ákvörðun eins og þjóðin gerði og kallað var eftir í atkvæðagreiðslunni í Danmörku í sumar. Þeir þorðu að treysta þjóðinni til þessara skrefa. Innrás Rússa leiddi einnig til vaxandi umræða í Finnlandi og Svíþjóð um fulla aðild ríkjanna að NATO og þau hafa, eins og við þekkjum, sótt um aðild að bandalaginu og flestöll aðildarríki bandalagsins samþykkt inngöngu þeirra.

Búast má við því, virðulegi forseti, að hernaðarátökin í Úkraínu og hinar umfangsmiklu efnahagsþvinganir sem lýðræðisríkin hafa gripið til gagnvart Rússlandi hafi langvarandi áhrif, auki óstöðugleika í heimsmálum og raski alþjóðasamskiptum líkt og við höfum þegar séð með tilliti til matvæla og iðnframleiðslu og aðfangakeðjunnar á heimsvísu. Ísland, eins og önnur Evrópulönd, er og verður háð samvinnu við Bandaríkin um hervarnir. Jafnframt er þar skýrt að Evrópuríki verða að axla meiri ábyrgð á vörnum álfunnar en þau hafa hingað til gert og þau eru þegar byrjuð að gera það. Flest ríkjanna hafa stigið stór skref og táknræn í þessa átt og nú þarf að halda áfram að þeirra mati á þeirri vegferð, ekki síst til að standa vörð um sameiginleg grunngildi lýðræðisþjóða. Vegna vaxandi áhrifa Kína verða Bandaríkin eðlilega bundnari við Asíu en áður, ekki síst Suður-Kínahaf og það svæði. Þetta hefur bæði áhrif á varnarsamstarf Evrópuríkja og efnahagsleg samskipti. Breyttar aðstæður kalla á þéttari samvinnu innan Evrópu á báðum sviðum milli þeirra ríkja sem grundvölluð eru á sameiginlegum vestrænum gildum og Ísland er að sjálfsögðu engin undantekning í þeim efnum.

Aðildin að innri markaði Evrópusambandsins fyrir tilstilli EES-samningsins og aðildin að NATO hafa verið tvær meginstoðir íslenskrar utanríkisstefnu. Við flutningsmenn teljum eðlilegt að nýjum aðstæðum verði mætt með því að styrkja þessa tvo kjarna utanríkisstefnunnar. Eftir síðari heimsstyrjöld gerðu lýðræðisríkin sér grein fyrir því að útilokað væri að tryggja frið og öryggi með hervörnum einum saman. Aukið viðskiptafrelsi, vaxandi hagsæld og sömu leikreglur fyrir alla hefðu jafn mikla þýðingu til að ná því friðarins markmiði. Hervarnir og viðskiptafrelsi voru því þannig tvær hliðar á sama peningi og þær eru það enn þá. Hugsum því til baka: Hvar værum við stödd ef helsta forystufólkið í stjórnmálum hefði á sínum tíma hér á landi staðhæft að með tilboði Bandaríkjanna um aðild Íslands að NATO væri verið að misnota hörmungar í annarlegum tilgangi? Við værum einfaldlega ekki þar. Við megum heldur ekki gleyma því að bandalagsþjóðir okkar í NATO eru að mestu þær sömu og við eigum samvinnu við á innri markaði Evrópusambandsins.

Utanríkispólitík ríkisstjórnarinnar byggir aftur á móti á þeirri sérkennilegu hugsun að hægt sé að telja fólki trú um að þessar þjóðir verji fullveldi okkar í NATO en vilji síðan koma því fyrir kattarnef innan Evrópusambandsins. Samvinna þessara þjóða um efnahag, varnir og öryggi byggist á sameiginlegum gildum. Við erum þegar aðilar að kjarna efnahagssamstarfsins. Lokaskrefið til fullrar aðildar er spurning um minna skref en við stigum á sínum tíma þegar Ísland varð aðili að innri markaði Evrópusambandsins. Í tillögu okkar er því aðeins verið að kalla á að eðlilegt mat verði lagt á stöðuna í ljósi nýrra aðstæðna og þeirra breytinga sem fyrirsjáanlegar eru á heimsvísu. Varfærnara getur það varla verið og það má kannski gagnrýna okkur fyrir það.

Ákvörðun um aðild að EES-samningnum og innri markaði Evrópusambandsins var tekin við lok kalda stríðsins. Síðan eru liðnir þrír áratugir. Það hefur verið tími mikilla umskipta og breytinga í alþjóðamálum, mjög umfangsmikilla breytinga þótt bara væri horft til síðustu mánaða. Víðast hvar hafa bandalagsríki okkar tekið nýjar og þýðingarmiklar ákvarðanir, hvort sem um er að ræða efnahagssamstarf eða varnarsamstarf. Samt höfum við Íslendingar ekki tekið neinar nýjar ákvarðanir til að laga okkur að breyttum aðstæðum. Það er í þessu utanríkispólitíska tómarúmi ríkisstjórnarinnar sem þingflokkur Viðreisnar hefur sett fram þá tillögu sem hér um ræðir.

Fyrsta efnisatriði tillögunnar felur því í sér að utanríkisráðherra geri áætlun um verulega aukna þátttöku Íslands í borgaralegum störfum vegna sameiginlegra verkefna NATO. Ísland hefur í áranna rás tekið þátt í slíkum borgaralegum verkefnum. Nú þegar aðrar þjóðir stórauka framlög til varnarmála er rétt að Ísland leggi sitt af mörkum með umtalsvert öflugri þátttöku á þessu sviði en verið hefur. Að sjálfsögðu verður Ísland að leggja áfram sitt af mörkum á sviði mannúðar og flóttamannaaðstoðar, þróunaraðstoðar og gera það markvisst og af metnaði.

Annað efnisatriði tillögunnar lýtur að því að utanríkisráðherra óski eftir samningum við Bandaríkin um viðbót við varnarsamninginn. Breyttar aðstæður kalla á skýrari ákvæði í sumum greinum. Á vettvangi NATO er unnið að vörnum gegn netárásum. Hins vegar er ekki hægt að segja með óyggjandi hætti að varnarsamningur við Bandaríkin nái yfir netárásir á Ísland. Flutningsmenn telja því sérstaklega mikilvægt að í texta varnarsamningsins eða viðauka við hann verði tekin af öll tvímæli um að hann nái til viðbragða við netárásum sem ógna öryggi og ekki síður fullveldi Íslands. Einnig er mikilvægt að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti á mikilvægi þess að halda samgöngum og samskiptum Íslands við umheiminn opnum á ófriðartímum. Tryggja þarf öryggi fólks og birgðaflutninga og gæta þarf að öryggi þeirra sæstrengja sem liggja til landsins, ekki síst í ljósi þess að rússneskir kafbátar hafa kortlagt sæstrengina og gleymum heldur ekki skemmdarverkunum á Nordstream-gasleiðslunum í Eystrasaltinu fyrr í vor. Svo er líka nauðsynlegt að bæta við ákvæðum sem mæla fyrir um hvernig ákvarðanir skuli teknar og hvar ábyrgð liggur í stjórnkerfinu komi til þess að taka þurfi ákvarðanir um viðbrögð við yfirvofandi hættu. Í þessum tengslum vil ég líka segja að við verðum að efla sérfræðiþekkingu á öryggis- og varnarmálum og gera það markvisst.

Þriðja atriði tillögunnar lýtur svo að því að meta mikilvægi þess að hafa viðvarandi varnarsveitir á landinu í samvinnu við NATO og sérfræðinga í varnarmálum. Þetta er mikilvæg viðbót við þann fælingarmátt sem felst í aðild Íslands að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin. Baldur Þórhallsson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur m.a. bent á þetta, með leyfi forseta:

„Allt til ársins 2006 byggði varnarstefna Íslands og bandalagsríkja Íslands í NATO á varanlegri viðveru varnarliðs á landinu. Mikilvægi fælingarinnar má ekki vanmeta og því lykilatriði að vera með fasta viðveru varnarliðs á öryggissvæðinu í Keflavík. Föst viðvera varnarliðs myndi styrkja til muna þann fælingarmátt sem aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin felur í sér, eins og raunin var á tímum kalda stríðsins.“

Þetta segir einn helsti sérfræðingur okkar á þessu sviði, Baldur Þórhallsson. Í tengslum við loftrýmis- og kafbátaeftirlit við Ísland skiptast bandalagsríki okkar á að sinna tímabundinni viðveru á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem nú hefur aukist samhliða vaxandi áhyggjum af framtíðaráformum rússneskra og kínverskra stjórnvalda á norðurskautinu. Viðvera bandalagsríkjanna er ekki föst að nafninu til en þá vaknar sú spurning hvort hún sé það í raun. Að sögn stjórnvalda er ekki um fasta viðveru að ræða. Reynsla síðustu ára sýnir hins vegar annað og við skulum þá segja það bara hreint út og láta alla vita af því. Ef viðvera herafla er í rauninni föst hér er því að mínu mati um tvískinnung að ræða og það dregur úr þeim fælingarmætti sem aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin fela í sér. Mat á þessum atriðum má ekki stöðva þótt forystuflokkurinn í ríkisstjórn sé andsnúinn þátttöku Íslands í NATO og veru varnarliðs hér á landi. Hér þarf kalt hagsmunamat miðað við öryggishagsmuni þjóðarinnar.

Síðast en ekki síst fjallar fjórða efnisatriðið um það að styrkja pólitíska og efnahagslega stöðu Íslands í Evrópu. Einkum þykir brýnt að horfa til þess að Ísland auki áhrif sín með því að fá sæti við borðið í Evrópusambandinu eins og í NATO. Vegna innrásar Rússa í Úkraínu og áherslu Bandaríkjanna á önnur svæði heims hafa öryggis- og varnarmál hlotið aukið vægi innan Evrópusamstarfsins. Mikilvægt er að Ísland verði strax frá byrjun með í áætlunum Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum með þeim þunga sem fylgir fullri aðild að sambandinu. Ljóst er að því myndi fylgja frekari öryggistrygging gagnvart þeim áhættuþáttum sem landið er annars illa tryggt fyrir, ekki síst hvað samfélagsöryggi varðar. Án aðildar að Evrópusambandinu njóta Íslendingar ekki slíkrar tryggingar, líkt og fram kom í ábendingum þverfaglegrar áhættumatsskýrslu frá 2009 sem unnin var í kjölfar brotthvarfs varnarliðsins. Þessu hafa Danir nýlega gert sér grein fyrir og í Noregi er sífellt hærra ákall eftir aukinni umræðu og þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild landsins, raunar þvert á flokka, þvert á hugmyndastefnur. Þar nægir m.a. að vísa til ályktunar á landsfundi norska hægri flokksins og frá hlið verkamannaflokksins má vísa til ummæla formanns borgarráðs Óslóarborgar, og fyrrum forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondevik, sem lengi hefur verið mótfallinn ESB-aðild landsins, hefur sömuleiðis kallað eftir umræðu og þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Tölum saman, hefjum umræðuna og treystum síðan þjóðinni til að stíga þetta skref. En hér má ekki treysta þjóðinni, það kom alveg skýrt fram í þingsal, m.a. fyrr í vikunni þegar fjármálaráðherra og ráðherra í ríkisstjórn Íslands segist ekki treysta þinginu, hvað þá þjóðinni, til þess að stíga svona stór og mikilvæg skref.

Með lokaskrefinu frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins að fullri aðild má einnig auka aðgengi fyrir íslenskar vörur að Evrópumarkaði, ekki síst sjávarafurðir, og tryggja heimilum og fyrirtækjum, litlum sem stórum, meiri stöðugleika og betri samkeppnishæfni með öflugri gjaldmiðli. Þetta er einfaldasta leiðin til að tryggja samkeppni, m.a. á bankamarkaði og tryggingamarkaði. Aukið viðskiptafrelsi og aðgangur að mörkuðum styður einnig við öryggi Íslands. Hervarnir og viðskiptafrelsi eru tvær hliðar á sama peningi, eins og var sagt fyrir tugum ára síðan þegar framsýnt fólk ákvað að verða hluti af NATO og í kjölfarið var líka stofnað til Evrópubandalagsins. Þetta fjórða efnisatriði tillögunnar snýr því að því.

Virðulegi forseti. Heimsmyndin er gjörbreytt, togstreita milli stórvelda heimsins og ekki eru líkur á því að hún minnki á næstu árum. Viðskiptaþvinganir eru líklegri til að verða algengari og þeim beitt í meira mæli en áður og þá er mikilvægt að vera í öruggu skjóli meðal ríkja sem tryggja aðgang Íslands að stórum mörkuðum. Þannig tryggjum við einnig viðskiptafrelsi í ríkara og öruggara mæli sem er einkum mikilvægt í því breytilega og óörugga umhverfi sem nú er uppi, sjáum bara Bretland. Við stöndum andspænis nýjum áskorunum, annars konar valdahlutföllum í heiminum og vaxandi þörf lýðræðisríkja fyrir samvinnu, ekki einungis um hervarnir heldur einnig um grunngildi, menningu, viðskipti og efnahag. Viðbrögð okkar við stríðinu í Úkraínu eiga því ekki einskorðast við daginn í dag. Við þurfum að horfa fram í tímann. Við þurfum að meta stöðu Íslands í nýju ljósi og tryggja framtíðarhagsmuni landsins á öllum sviðum.