Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[16:41]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir að þessi tillaga sé komin inn í þingið og að við ræðum varnar- og öryggismál og alþjóðlegt samstarf. Efnislega er ég að mestu mjög sammála því sem kemur fram í tillögunni nema kannski fjórða þættinum sem þar er ræddur, varðandi það að Ísland gangi í Evrópusambandið vegna öryggishagsmuna Íslands. Ég var staddur á ráðstefnu á vegum NATO-þingsins fyrir fjórum vikum í Finnlandi og þar var farið yfir ástandið í norðanverðri Evrópu og öllu svæðinu, öryggið. Þarna voru forseti Finnlands og þingforsetinn og varnarmálaráðherra Finnlands. En þarna var einnig utanríkisráðherra Finnlands og hann var spurður út í grein 42.7 í Lissabonsáttmálanum, sáttmála Evrópusambandsins, og 42.7 gr. var sérstaklega tilgreind, af hverju það væri ekki bara nóg fyrir Finnland að treysta á þessa grein þegar kemur að varnarsamstarfi. Það hefur oft verið minnst á þá grein á Íslandi í tengslum við þetta, hún ætti að tryggja varnir Evrópusambandsins. Hann sagði að þetta hefði ekkert að gera með varnir. Finnar litu svo á að þetta gæfi þeim ekki neitt í vörnum Finnlands og það væri nauðsynlegt fyrir þá, þeir yrðu að vera hluti af NATO til að tryggja varnir landsins. Ég verð því miður að koma þessu beint frá mér hvernig finnski utanríkisráðherrann svaraði þarna á ráðstefnunni í Helsinki, á ensku: „There is no structure, no soldiers and no training.“ Hann lét mjög skýrt í ljós hvernig Finnar litu á þetta og síðan svöruðu Svíar með sama hætti fyrir sig á ráðstefnunni. (Forseti hringir.) Mig langar því að fá betri útskýringu á því hvernig Viðreisn sér þetta fyrir sér í þessu samhengi og hvernig þetta hefur verið rætt síðan í febrúar.