Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við verðum að skoða málið í svolítið stærra samhengi. Sameiginleg stefna Evrópusambandsins snýst einmitt um öryggismál í hinu stóra samhengi. Ekki gleyma því að Evrópusambandið er önnur hliðin af tveimur á peningi, friðarpeningi heimsins. Heildræn nálgun í þessari sameiginlegu stefnu á öryggis- og varnarmál í sem víðustum skilningi er einkum það sem ESB hefur fram að færa umfram NATO á þessu sviði. Áhættuþættirnir gagnvart Íslandi eru heldur ekki — og þess vegna erum við að draga þetta fram — ósvipaðar þeim sem settir eru fram í öryggisstefnu Evrópusambandsins, m.a. á sviði efnahags, innviða, umhverfis o.s.frv., netöryggis líka. Slík samvinna tekur bæði til viðbúnaðar- og viðbragðsáætlana á Íslandi sem og þátttöku í alþjóðlegum aðgerðum. Öryggis- og varnarstefna Evrópusambandsins að mínu mati fellur því mjög vel að stefnu íslenskra stjórnvalda í öryggismálum. Við erum líka að sjá núna nýju drögin að þjóðaröryggisstefnu. Í ljósi alls þessa er ESB að fara að taka sér vaxandi hlutverk í öryggis- og varnarmálum. Þá vil ég einfaldlega, í ljósi öryggis- og varnarhagsmuna Íslendinga, eiga sæti við borðið, ekki síst til þess að tryggja betur lýðræði og frið í álfunni. Það er hluti af því. Það er stór partur af því að við í Viðreisn erum að tala um varnar- og öryggismál, hvernig við tryggjum frið, öryggi og lýðræði. Þess vegna er það svo brýnt fyrir okkur að verða fullgildur aðili að samstarfinu. Ég spyr enn og aftur: Voru þá Danir í þjóðaratkvæðagreiðslu sinni að ræða um ekki neitt? Ekki um þátttöku í varnar- og öryggishluta Evrópusambandsins? Það vita allir innan Evrópusambandsins að þeir munu auka framlög sín bæði innan NATO og innan Evrópusambandsins til varnar- og öryggismála. Umræðan um varnar- og öryggismál í víðu samhengi hjá Evrópusambandinu mun aukast og þá eigum við að vera þátttakendur. Það skiptir svo miklu máli fyrir okkur Íslendinga. (Forseti hringir.) Enn og aftur segi ég: Treystum einfaldlega þjóðinni til að taka næsta skref. Við það á enginn að vera feiminn.