Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[16:51]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég kom inn á það í andsvari að ég fagna umræðunni um þessi mál og að þetta mál sé lagt fram. Ég er þó kannski ekki alveg sammála 4. tölulið tillögunnar.

Mig langar rétt að hlaupa yfir helstu þætti málsins. Fyrsta atriðið er að Ísland stórauki þátttöku sína í borgaralegum verkefnum á vegum Atlantshafsbandalagsins. Ég held að það sé vel til fundið að skoða hvað hægt er að gera. Gott verk hefur verið unnið undanfarin 15–20 ár sem snýr að þessum borgaralegu verkefnum sem maður þekkir kannski best til, hvort sem það er flugumferðarþjónusta í Kosovo eða Afganistan á sínum tíma. Mörg önnur verkefni hafa verið unnin eins og við fjölmiðlastörf í Eystrasaltsríkjunum í dag. Því er örugglega víða hægt að gera enn betur í þeirri vinnu.

Ég vil benda á að ég hef rætt það áður í þingsal að ég hefði viljað sjá okkur leggja meiri áherslu á leit og björgun í Norður-Atlantshafi sem hluta af borgaralegri þjónustu við Atlantshafsbandalagið og tryggja þjónustuna, t.d. loftrýmisgæslu. Eins og ég skil umræðuna í dag þá geta orrustuþotur bara flogið yfir Ísland, ekki eins og í gamla daga þegar þær gátu farið út á sjó og tekið æfingar. Raunverulega er geta Íslands takmörkuð til að sinna leit og björgun á Atlantshafinu. Ísland er, eins og við þekkjum, rúmir 100.000 km² og landhelgin um 786.000 km² en frá Íslandi erum við að stýra leit og björgun á hafsvæði sem er 2 milljónir km², 20 sinnum stærra en Ísland. Ég held að þetta eigi að vera eitt af markmiðunum. Mín persónulega skoðun er að við eigum að gera betur í þessu og þar gætum við kannski sett inn aukið fjármagn.

Varðandi 2. tölulið, með leyfi forseta:

„… að gera varnarsamstarf við Bandaríkin virkara í ljósi nýrrar hættu sem steðjar að öryggi þjóða heims óski utanríkisráðherra þegar í stað eftir viðræðum við Bandaríkin um viðbót við varnarsamning landanna.“

Undir a-lið í 2. tölulið þá er einmitt talað um netárásir og netöryggismál eins og við ræddum síðast í gær. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur og verður sífellt mikilvægari. Mér finnst eðlilegt að það sé skoðað. Í sjálfu sér þekki ég ekki hvort eitthvað hafi verið gert síðan síðasta viðbótin var gerð árið 2006. Þá var þetta sem snýr að netöryggismálum og netárásum varla til. Því hefur þetta þróast gríðarlega mikið á 16 árum og það er vel til fundið að þau mál séu skoðuð, bæði netárásir sem og fjölþáttaógnir sem tengjast þessu.

Við þurfum líka að hafa í huga, eins og ég minntist á í gær í umræðu um netöryggis- og fjölþáttaógnir, að styrkja þetta virkilega með Norðurlandaþjóðunum í gegnum NORDEFCO. Það samstarf er að eflast núna þegar Finnar og Svíar ganga inn í NATO og það er gríðarlega mikilvægt. Auðvitað er þetta síðan eitt af fimm sviðum NATO sem búið er að skilgreina í dag. Það eru loftrýmisgæsla, hernaður á landi og sjó og síðan hefur hinn stafræni heimur og geimurinn orðið fjórða og fimmta sviðið innan NATO-samstarfsins sem eru orðin gríðarlega mikilvæg, eins og við þekkjum í umræðunni.

Í b-liðnum er þess getið „að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti til mikilvægis órofinna samgangna, innviða og samskipta Íslands við umheiminn á ófriðartímum, eins og birgða og fólksflutninga, sæstrengja og orkuöryggis“.

Ég hef fulla trú á að vel sé gætt að þessu í varnarsamningnum. Í sjálfu sér er eitt mesta mikilvægi Íslands fyrir NATO fólgið í að gæta hafsvæðisins frá Norður-Ameríku, Bandaríkjunum og Kanada, yfir til Evrópu, að gæta flutninga, liðsflutninga og birgða yfir hafið. Það sem gæti verið nýtt í þessu er hið gríðarlega mikilvægi sæstrengja og orkuöryggis, sem er kannski sú umræða sem hefur mest farið af stað eftir Úkraínustríðið en var reyndar byrjuð fyrir rúmu ári síðan í tengslum við orkukreppuna sem við höfum kynnst í Evrópu. Það er bara mjög eðlilegt að þetta sé skoðað betur.

Síðan finnst mér c-liðurinn áhugaverður, „að varnarsamningurinn geymi ákvæði um verkferla og ábyrgð á töku ákvarðana komi til þess að virkja þurfi aðstoð Bandaríkjanna samkvæmt ákvæðum samningsins“. Nú þekkir maður ekki almennilega hvernig stendur á gagnvart þessu. Auðvitað þurfa verkferlar og formfesta að vera í þessum samskiptum. Hvað gerist ef við þurfum á einhverju að halda í einstökum málum sem snúa að vörnum og öryggi landsins? Það er fínt að taka það upp og skýra betur ef þörf er á og einnig varðandi verkferla í stjórnkerfinu. Það held ég að sé mjög áhugaverð nálgun. Eins og við þekkjum kannski af nefndafundum í utanríkismálanefnd þá höfum við aðeins velt fyrir okkur hvernig þetta fari allt fram, ef einhvern tíma skyldi koma upp slíkt hættuástand að virkja þyrfti samninginn við Bandaríkin, og hvernig samvinna við NATO fari fram.

Síðan er það 4. töluliðurinn. Ég kom inn á að ég væri ekki alveg ginnkeyptur fyrir honum og ég er honum mótfallinn. Varðandi það sem snýr að því að við göngum í Evrópusambandið til að tryggja varnir Íslands þá hef ég verið að benda á að 80% af því fjármagni sem er varið til varnar- og öryggismála innan Atlantshafsbandalagsins kemur frá þessum 9 þjóðum af 30 sem ekki eru í Evrópusambandinu. Í dag koma 20 % frá Evrópusambandsríkjunum, sem vonandi verða 23% innan skamms tíma þegar Finnar og Svíar ganga inn, en 80% koma frá þeim 9 þjóðum sem standa utan Evrópusambandsins en innan NATO. Þess má geta að þegar Bretar gengu út úr Evrópusambandinu þá breyttist þetta hlutfall úr 70/30 í 80/20. Bretar lögðu til þriðjung þess fjármagns Evrópusambandsins sem var varið til varnar- og öryggismála á þeim tímapunkti.

Ég rakti það í máli mínu áðan að þegar utanríkisráðherra Finnlands var spurður í Helsinki fyrir fjórum vikum hvort gr. 42.7 í Evrópusáttmálanum, sem kom inn í Lissabon-sáttmálann á sínum tíma, dygði ekki til að tryggja varnir Finna og Svía, þá sagði hann að lagagreinin væri eiginlega innihaldslaus eins og ég benti á áðan. Það var á þeim forsendum að engar varnir væru raunverulega tengdar þessu, engir hermenn og hvað þá heræfingar. Það væri erfitt að byggja varnir lands á slíku ferli. Ég bendi á að ég hef farið fimm sinnum til Finnlands á einu ári, nokkrum sinnum hefur þetta komið upp og stór hluti af þeirri umræðu hefur tengst varnar- og öryggismálum. Ég held að fáar þjóðir í Evrópu síðustu 70, 80 ár hafi tekið varnar- og öryggismál jafn alvarlega og Finnar. Allt sem kemur að varnar- og öryggismálum þar er úthugsað. Þeir drógu aldrei úr fjármagni til varnar- og öryggismála, eitt fárra ríkja í hinum vestræna heimi eftir kalda stríðið og á þeim tíma sem kom í framhaldinu. Síðustu 30 ár hafa þeir alltaf haldið sínu striki sem snýr að þessu og eru raunverulega með ótrúlegt kerfi á bak við sinn her til að tryggja þessar varnir. Við fengum góða kynningu fyrir fjórum vikum um hvernig þeir hugsa þetta. Vetrarstríðið veturinn 1939–1940 situr mjög í Finnum og því er það í genunum þeirra að það þurfi að tryggja þetta. Allt samfélagið er samþætt um að ýta á og tryggja þessar varnir. Ég fæ kannski að koma upp í fimm mínútur á eftir, tíminn líður hratt, en ég læt þetta duga að sinni.