Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:01]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt að ræða í þessu og ég vil hrósa hv. þingmanni sérstaklega, sem hefur nokkurn veginn einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins verið að sinna varnar- og öryggismálum þjóðarinnar, fyrir þátttöku og umræðu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Af hverju er ekki farið í formleg samtöl við Bandaríkin til að reyna að tryggja að þetta sé ótvíræð viðbót við varnar- og öryggissamninginn? Það eru ekki skýrir verkferlar um það hvernig eigi að bregðast við ef öryggishætta steðjar að eða við hvern eigi að tala ef ráðist er á sæstrengi, svo dæmi séu nefnd.

Í öðru lagi vil ég taka undir með hv. þingmanni varðandi verkefnin, til að mynda leit og björgun. Við eigum einmitt að skoða hvað við getum gert og hvert við setjum aukin framlög. Borgaraleg verkefni eru hluti af því sem við getum gert, bæði á erlendri grundu en líka hér heima.

Síðan er önnur spurning varðandi veru viðvarandi varnarliðs. Við vitum það bæði tvö, höfum margsinnis séð það, að hér eru ákveðnir flokkar varnarliðs meira og minna með viðveru, hvort sem það eru Danir í einhverjar sex vikur og Ítalir í átta vikur hverju sinni eða hvað það er. Af hverju er ekki hægt að segja það? Er það viðkvæmt fyrir ríkisstjórnina?

Þriðja spurningin er: Hefði hv. þingmaður viljað sjá ákveðnari skref tekin í varnar- og öryggismálum af hálfu ríkisstjórnar til að tryggja öryggi og varnir Íslands? Telur hv. þingmaður að þetta hafi verið fullnægjandi af hálfu ríkisstjórnarinnar? Mín skoðun er sú að við getum gert meira en út af samsetningu ríkisstjórnarinnar þvælast ákveðin atriði fyrir fólki. (Forseti hringir.) Ég geri mér grein fyrir því að hv. þingmaður eigi örugglega erfitt með að svara þessu vegna þess að hann styður ríkisstjórnina, (Forseti hringir.) en mér finnst ekki nægilega mikið að gert í þessu risamáli.