Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:04]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Þetta eru mjög góðar spurningar. Ég tek fram að ég kem líka fram með mínar persónulegu skoðanir hér. Það er ekki alltaf einfalt að vera í þriggja flokka stjórn þar sem ólíkar skoðanir ráða för. Mínar persónulegu skoðanir held ég að séu öllum ljósar og hafa víða komið fram í máli mínu. Ég held að það væri mjög eðlilegt að þessi formlegu samtöl við Bandaríkjamenn yrðu tekin upp og að verkferlar, formfesta og kerfin séu rædd. Heimurinn er mjög breyttur frá 1951, við lifum í allt öðrum heimi. Ég efast um að Bandaríkjaher hefði farið árið 2006 eða bandaríski flotinn með sínar herþotur ef hann hefði haft einhverja hugmynd um það sem ætti eftir að fylgja í framhaldinu. Ég held að það sé orðið viðurkennt, maður heyrir mjög víða í samtölum og hjá bandarískum fræðimönnum að þeir telja svo vera.

Varðandi viðveru varnarliðs á Íslandi. Auðvitað er það þannig og það hefur komið fram í fréttum, t.d. varðandi kafbátaleit og hvað hefur verið að gerast hérna síðustu fimm eða sex ár — maður hefur sjálfur talið 11 kafbátaleitarvélar á sama tíma úti á velli og skilst mér að þær hafi flestar verið 13 — að hér hefur að meðaltali verið stöðug viðvera í fimm eða sex ár og töluverður mannskapur. Þetta passar með loftrýmisgæsluna. Þegar hún var kölluð til í byrjun held ég að hún hafi átt að vera þrisvar, fjórum sinnum á ári, tvær, þrjár vikur í senn. Í dag er hún lengri og oftar yfir árið, enda held ég almennt að skilningurinn sem snýr að þessu í pólitík á Íslandi sé allt annar.