Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:09]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég er að ræða varðandi Evrópusambandið snýr líka að því að við séum ekki að rugla saman málefnum sem snúa að aðild Íslands að Evrópusambandinu og síðan varnar- og öryggismálum þjóðarinnar. Það er ekki sterkur þráður til að spinna í tengslum við aðild að Evrópusambandinu, ég held að sú umræða verði fyrst og fremst að fara fram á einhverju öðru sviði.

Hv. þingmaður ræddi aðeins um Dani. Það er áhugavert og ég vildi bæta því við að við í Varðbergi héldum ásamt Alþjóðastofnun Háskóla Íslands ráðstefnu á þriðjudaginn og síðan fór hópurinn á nefndasvið í gær ásamt 15 norrænum sérfræðingum í varnar- og öryggismálum frá Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Færeyjum og Grænlandi. Það er ekki oft sem við fáum tækifæri til að ræða varnar- og öryggismál á þessu heimssvæði við Færeyinga og Grænlendinga. Samvinna um leit og björgun og slíkt kemur inn í þetta og hana held ég að við verðum að skoða. Danir eru að fara í að endurnýja skipin sem þeir eru með í Norður-Atlantshafi, þessi fjögur skip sem þeir hafa fyrst og fremst nýtt í landhelgisstörf í kringum Grænland og norður á Íslandi. Nú eru Danir að bæta í og settu 1,5 milljarð danskra króna í fjárfestingar í þessum málum og ætla að byggja upp sín skip og sína getu. Ég held að það væri mjög áhugavert ef sú geta væri byggð upp í leit og björgun í samvinnu við Íslendinga og mögulega Bandaríkjamenn. Lisa Murkowski hefur verið með frumvarp í öldungadeildinni í Bandaríkjunum sem snýr líka að öryggismálum á norðurslóðum. Það væri mjög áhugavert að reyna að leiða þessa hesta saman innan NATO til að tryggja leit og björgun. (Forseti hringir.) Ég held að leit og björgun sé gríðarlega mikilvæg fyrir okkar svæði.

Að lokum vil ég fyrst og fremst segja: Við erum að fást við gríðarlega mikilvægt og stórt svið til næstu áratuga. (Forseti hringir.) Það verða svo miklar breytingar á heimsvísu að þetta er lykilmál í öllu samhengi hlutanna.