Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:11]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Staða Íslands í samstarfi við bandalagsþjóðir sínar er sterkari en ætla mætti af þessari tillögu og kynningu hennar. Íslensk stjórnvöld hafa átt í virku samtali við okkar helstu bandalagsþjóðir, ekki síst í að búa Ísland betur undir nýjar ógnir samtímans, fjölþáttaógnir og netógnir, tryggja öryggi innviða o.s.frv. Það er sannarlega mikilvægt að árétta það og samstaðan þýðingarmikil okkur sem hér störfum.

Ég vil að ræða einstaka liði þessarar tillögu sem hér liggur fyrir og ég byrja á 1. liðnum. Þá vil ég segja að fyrir liggur að við höfum þétt raðirnar með bandalagsþjóðum okkar til að fást við þær ógnir sem við nú stöndum frammi fyrir, ekki síst vegna innrásar Rússa í Úkraínu og afleiðingar þess sem við sjáum ekki fyrir endann á. Áhersla á borgaraleg verkefni fremur en hernaðarleg hafa verið í fyrirrúmi af okkar hálfu og þess er að vænta að svo verði áfram og á því verði frekar skerpt í ljósi yfirstandandi stríðsátaka.

Varðandi 2. liðinn. Ísland hefur þá sérstöðu að í gildi er tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin. Á grunni hans og annars samstarfs bandalagsríkja okkar eigum við í reglulegu samráði og íslensk stjórnvöld við Bandaríkin um öryggishagsmuni okkar, samtal sem virðist virt og ljóst. Það er mikilvægt fyrir þjóðaröryggi okkar að við séum sem best búin til að verjast og takast á við hvers kyns netógnir, netglæpi, netárásir, falsfréttir, atlögu á stoðir lýðræðis og stafrænar árásir á grunninnviði, að til staðar sé nauðsynleg þekking og umgjörð í landinu til að veita okkur vernd gegn sífellt flóknari og háþróaðri netógnum. Ein af grundvallarstoðum þjóðaröryggis okkar felst því í stafrænu sjálfstæði þjóðarinnar, að við séum ekki öðrum háð um slíka varnir. Þá þekkingu getum við m.a. sótt til þeirra vinaþjóða okkar sem sterkastar eru á þessu sviði. Stafrænt sjálfstæði Íslands þarf að vera ein af grunnstoðum þjóðaröryggisstefnu okkar. Hér getum við einmitt nýtt varnarsamning okkar við Bandaríkin betur til að njóta þeirrar þekkingar til að byggja upp þá innviði sem þörf er á til að fást við sífellt flóknari fjölþáttaógnir og netógnir nútímans, að þær vinaþjóðir okkar sem best eru til þess búnar aðstoði okkur við að byggja upp varnir gegn þessum nýju ógnum. Þetta getum við gert á grundvelli núgildandi varnarsamning við Bandaríkin og í gegnum samstarf við fleiri vinaþjóðir.

Hér að 3. liðnum. Í ljósi þess hve eðli þeirra ógna sem við þurfum að fást við hefur breyst eru það raddir fortíðar að kalla eftir því að Bandaríkin eða aðrar þjóðir komi upp setuliði á nýjan leik. Öryggisáskoranir Íslands eru sannarlega margar, flóknar og sumar alvarlegar og við það þurfum við að fást með viðeigandi hætti í samstarfi við vinaþjóðir okkar.

Með 4. liðinn. Ekki verður séð að innganga í Evrópusambandið muni treysta öryggishagsmuni Íslands eða pólitíska stöðu landsins. Við þurfum að meta stöðu okkar á hverjum tíma og það er ljóst að hér er svarið nei. Það er hins vegar mikilvægt að við eigum í virku og góðu samstarfi við Evrópuþjóðir og að Evrópuþjóðir treysti gildi sín og taki sjálfar ábyrgð á eigin framtíð.