Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Jónssyni, þingmanni Vinstri grænna og formanni utanríkismálanefndar, fyrir að taka þátt í samtali um þessa tillögu. Ég geri mér grein fyrir því að við erum svolítið á öndverðum meiði hvað varðar öryggis- og varnarmál en ég verð þó að segja að ég fagna mörgu því sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi þess að efla okkur, efla varnir Íslands þegar kemur að fjölþáttaógnum. Þá vil ég einmitt benda á það að ein helsta mantran hjá Evrópusambandinu í sinni víðtæku öryggis- og varnarstefnu, sem þau eru að auka og efla, er m.a. um netöryggi, um fjölþáttaógnir, um það sem getur ógnað lýðræði, frelsi og friði í álfunni. Lykillinn að því er m.a. að efla varnir gegn fjölþáttaógnum og ég veit að samstarfsríki okkar eru flest ef ekki öll, fyrir utan kannski Bretland, í einmitt Evrópusambandinu og við þurfum að leita til þeirra.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð er á móti því að ganga í Evrópusambandið en ég held að við ættum að taka það skref að segja bara: Við skulum treysta þjóðinni til að taka næsta skref og ákveða hvort við eigum að fara að endurnýja ferlið. Þá kemur fram hversu víðtækt hlutverk Evrópusambandið hefur og mun fara með enn frekar á sviði varnar- og öryggismála sem er beintengt við efnahagsmál, félagsmál, loftslagsmál, svo maður tali nú ekki um þau, í álfunni. Allt þetta snýr að varnar- og öryggishagsmunum. Ekki bara að horfa á þröngu hagsmunina eins og við horfðum á þá á sínum tíma, heldur eru varnar- og öryggishagsmunir í miklu víðara samhengi í breyttum heimi. Þar er t.d. Evrópusambandið á undan okkur varðandi loftslagsmál og ætlar að auka í enn frekar og styrkja markmið þegar kemur að loftslagsmálum. Allt þetta snertir okkur Íslendinga, (Forseti hringir.) ekki síst á sviði varnar- og öryggismála. Það er þetta stóra samhengi (Forseti hringir.) sem við í Viðreisn viljum að þingið og síðan þjóðin fái að taka afstöðu til.