Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Evrópusambandið er m.a. að styrkja allar sína gagnagrunna. Við þurfum að hafa aðgang að þeim. Það gerist ekki öðruvísi en að við verðum aðilar að Evrópusambandinu. Fyrrverandi forystumenn flokka, t.d. í Noregi, sem voru alfarið á móti Evrópusambandinu, eru að reyna að draga fram mikilvægi umræðunnar um Evrópusambandið í þessu stóra samhengi; hvaða máli þetta skiptir, ekki bara fyrir efnahagslega hagsmuni landsins heldur líka félagslega og út frá umhverfi en ekki síður út frá varnar- og öryggishagsmunum. Þar hefur m.a. Bondevik verið að kalla eftir aukinni umræðu í Noregi og farið svipaða leið og við í Viðreisn erum að leggja til, að þjóðinni verði treyst til að taka næsta skref í Evrópumálum, harðara er það nú ekki. Árið 1949 urðum við aðilar að NATO. Það var eitt farsælasta skref í utanríkissögu þjóðarinnar þegar við tókum þá ákvörðun að vera við borðið, vera fullgildir aðilar við borðið til að hafa okkar rödd, til að tala rödd smáríkis sem hefur hagsmuni af því að vera í bandalagi og samstarfi fullvalda þjóða. Þá skipti rödd okkar máli, eins og hefur margoft sýnt sig í gegnum tíðina, hvað rödd okkar Íslendinga við það borð hefur haft mikla þýðingu. Það er að mínu mati mjög gott dæmi um það að það skiptir máli hvernig við Íslendingar notum fullveldi okkar til að styrkja það enn frekar og það gerum við í samstarfi við vinaþjóðir okkar, bæði austan hafs sem vestan.

Ég vil spyrja hæstv. hv. þingmann hvort hann telji svo vera að það séu hér varnarsveitir eða liðssveitir til að tryggja varnir okkar nokkurn veginn allt árið. Telur hann að það sé um viðvarandi veru að ræða eða er um stopular heimsóknir vinaþjóða okkar í NATO (Forseti hringir.) að ræða þegar kemur t.d. að loftrýmisgæslunni hér við landið? Er þá ekki bara hægt að ganga alla leið og segja: Heyrðu, við viljum einfaldlega (Forseti hringir.) vera með varnarlið hér viðvarandi til að tryggja fælingarmátt en líka ákveðna þjónustu og starfsemi hér á landi?