Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:22]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum alveg að tala í sömu átt þegar við ræðum um mikilvægi þess að efla samstarf Evrópuríkja og ekki síst í ljósi þessa einmitt að við deilum svo mörgu og sameiginlegum grunngildum, jafnvel sem er vegið að svo víða í kringum okkur. Evrópuríki hafa líka verið í fremstu röð í loftslagsmálum og fleiri málum sem við viljum sannarlega taka þátt í með þeim en svo er spurning um leiðirnar til að efla það samstarf og ná sem mestum árangri fyrir okkur og aðra. Það er ekki bara Evrópusambandið, við erum líka með Evrópuráðið og fleiri vettvanga þar sem við erum sannarlega að vinna saman með okkar sameiginlegu gildi. Ég er mjög frjálslyndur í þeirri umræðu þegar kemur að auknu samstarfi við Evrópuþjóðir og Evrópusambandið þótt ég sé kannski ekki á þeim stað að vilja að ganga alla leið eins og hér hefur verið nefnt.

Varðandi viðveru eða ekki viðveru þá hafa hér verið að koma sveitir í tengslum við ákveðin verkefni sem hafa verið tímabundin og á ýmsum tímum og það hversu samliggjandi þær viðverur eru er kannski mismunandi. En síðan er bara eðli verkefnanna að breytast svo mikið þegar kemur að þessum öryggisþáttum Íslands og þess vegna hef ég verið að benda á, og náttúrlega íslensk stjórnvöld, mikilvægi þess að efla möguleika okkar til að fást þetta, eins og þessar innviðavarnir okkar allar sem felast ekki bara í þessum hefðbundna hernaði og hefðbundnum vörnum heldur nútímavörnum. Þar þurfum við virkilega á bandalagsþjóðum okkar að halda til að aðstaða okkur, til að miðla þekkingu sinni, þjálfa upp fólk, koma upp grunninnviðum í landinu til þess að við eigum auðveldara með að takast á við og séum ekki öðrum háð um allar þær varnir gegna þeim fjölþáttaógnum sem við okkur blasa og þar þurfum við alveg klárlega að styrkja stöðu okkar.