Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:24]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma upp og rétt að klára nokkra punkta og vil einnig þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem farið hefur fram í dag um þessi stóru og miklu mál. Þessi málaflokkur mun skipta okkur gríðarlega miklu máli á næstu áratugum. Ég fagna þessari umræðu og held að það sé líka spennandi verkefni fyrir utanríkismálanefnd að ræða tillöguna og fá vonandi góðar umsagnir um þessi mál og góða kynningu fyrir hv. utanríkismálanefnd og þá þingmenn sem þar sitja, ég vona að við getum tekið góða og djúpa umræðu um þessi mál.

Varðandi það sem snýr að vörnum landsins í dag, eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þá held ég að það hafi verið gríðarlega mikilvægt og gæfa fyrir Íslendinga að hafa gengið í marsmánuði 1949 í Atlantshafsbandalagið, verið með frá upphafi. Það hafi verið gríðarleg forsjálni í þeirri ákvörðun sem þar var tekin af hálfu þeirra stjórnmálamanna sem leiddu þá för. Ég held líka að varnarsamningurinn frá því í maí 1951 hafi verið gríðarlega mikilvægt og stórt skref fyrir íslenskt samfélag á fyrstu árum lýðveldisins. Þetta voru algerar grundvallarákvarðanir sem voru teknar á þeim tímapunkti. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka þá umræðu reglulega upp. Við erum líka á seinni árum kannski að eflast og höfum eflst mjög þessa mánuðina, grunar mig, í allri umræðu innan Norðurlandaráðs og í varnar- og öryggismálum innan Norðurlandaráðs og ég held að norrænt varnarsamstarf í gegnum NORDEFCO muni eflast varðandi varnar- og öryggismálin. Ég bendi á skýrslu Björns Bjarnasonar frá 2020 sem hann vann fyrir utanríkisráðherra Norðurlandanna, tíu árum eftir að Thorvald Stoltenberg kom með sína skýrslu 2010, ég tel að hún sé ákveðinn grunnur. Reyndar væri áhugavert, held ég, að þessi skýrsla yrði unnin aftur núna miðað það sem gerst hefur, þó að það séu bara tvö ár síðan hún kom út, vegna þess að það hafa orðið miklar breytingar í svo mörgu sem snýr að þessu. Einnig er samstarf tíu þjóða sem við Íslendingar erum hluti af og heitir, með leyfi forseta, ég verð að segja það á ensku, ég hef það ekki í kollinum hvað það heitir á íslensku: Joint Expeditionary Force, sem við hófum þátttöku í fyrir tveimur árum. Það er samstarf Norðurlandaþjóðanna, Eystrasaltsins, Niðurlanda og Bretlands. Það starf sem þar er unnið hefur líka verið að eflast en þó að þetta starf eflist í norðurhluta Evrópu þá megum við samt ekki gleyma því og er mjög mikilvægt að gleyma því ekki að við erum hluti af og verðum hluti af Atlantshafsbandalaginu og það er full samstaða þar og unnið þvert yfir milli vonandi 32 ríkja innan skamms tíma.

Eitt stærsta verkefnið sem hefur komið upp í þessari umræðu er að verja fjarskiptakaplana. Við höfum dæmi bara á undanförnum vikum, þrjú dæmi, við Svalbarða, við Hjaltlandseyjar og sunnan við Frakkland þar sem strengir hafa slitnað í sjó. Mig minnir að það séu 550 svona kaplar í heiminum og mjög stór hluti af allri stafrænni umferð og netumferð fer um þessa kapla. Gervihnettir heimsins geta sinnt kannski 2–5% af flutningsmagni sem fer um kaplana í dag þannig að þetta eru gríðarlega mikilvæg mannvirki og þessa kapla þarf að verja.

Hérna var aðeins komið inn á fólksflutninga og við sem höfum tekið þátt í þessari umræðu áttum mjög góðan fund með félögum í þróunarsamvinnu í Iðnó fyrr í dag. Þar eins og á NATO-þinginu er mikið rætt um hvað sé að fara að gerast næstu áratugina, tengt fólksflutningum, loftslagsmálunum og rætt í stærra samhengi hlutanna en við gerum kannski hér og ræðum allt of lítið hér. Hvað er að fara að gerast næstu tíu, 20, 30 árin? Ég var í Addis Ababa í Eþíópíu á NATO-þinginu fyrir þremur árum þar sem var einmitt verið að tala um mannfjölgun, sérstaklega í Afríku, en þar mun mannfjöldi tvöfaldast á næstu 30 árum, og loftslagsmálin. Maður átti kannski ekki von á því ástandi sem hefur skapast þar á bara örskömmum tíma. Þar hefur ekki rignt núna í að verða fimm ár og náttúrlega orðin mjög slæm staða og að einhverju leyti er loftslagsmálunum náttúrlega kennt um þessa stöðu. Það eru mjög alvarlegir þurrkar í Sómalíu, Eþíópíu og víðar.

Orkuöryggi, ég myndi vilja koma inn á það en hef ekki tíma núna. En það sem er kannski grunnatriði og hvað við Íslendingar þurfum að gera, varðandi þessa tillögu, er líka að meta hvaða varnir við teljum nauðsynlegar fyrir Ísland og varðandi öryggi (Forseti hringir.) og látum ekki aðra segja okkur það. Við þurfum líka að vera með á hreinu (Forseti hringir.) hvað framfarir við viljum sjá í þessum málum til að tryggja okkar varnir og öryggi á íslenskum forsendum.